Hvað tæki við?

Við töldum okkur svo sem vita nokkurn veginn hvað okkar biði er við syngjum fyrir Norðurlandabúa í Kaupmannahöfn.  Jafnvel þó við þekktum hvorki salarkynni í sendiherrabústaðnum eða Oddfellow Palæed, þá vissum við að þarna vorum við að syngja fyrir vini sem við höfðum hitt áður og dagskráin að nokkru miðuð við það.

Kæmi nokkur að hlusta?

Hinsvegar vorum við ekki eins vissir um karlakórahefð í Póllandi eða meðal Oddfellowbræðra okkar í Berlín.  Við vissum hinsvegar að þarna yrðu gestir á tónleikum okkar, sem væru vanir að mæta á tónleika og heyra afburðaflytjendur leika og syngja stórvirki úr tónbókmenntum Evrópu og víðar.

Dagskrána töldum við þó vera okkur í hag.  Framandi íslensk tónlist og hvert lag kynnt á pólsku og/eða þýsku, í þeim tilgangi að vekja áhuga á sérstöðu íslenskrar tónlistar gagnvart hinni evrópsku.

Alþjóðlegu lögin voru perlur, sem margir þekktu, en höfðu kannski ekki áður heyrt flutt af karlakór og á framandi tungumáli.  Lokakórinn úr Vesalingunum, Fangakórinn úr Nabucco og svo Hraustir menn, þar sem Örn Árnason leikari söng einsönginn, með sínum alþekktu tilþrifum.

Glæsilegur píanóleikur Ástvaldar Traustasonar og sönggleði fremur en dramatík og andakt, allt átti þetta að verða til að koma á óvart, þeim sem hugsanlega leggðu leið sína á tónleikana okkar.

Áfram til Póllands

Kl. 19:00 á sunnudegi var Oddfellowhátíðinni lokið og til móts við okkur kominn Dr. Þorleifur Friðriksson, sagnfræðingur og leiðsögumaður „par exellence“ og sænsk rúta. Stefnan var sett á Istad á Skáni, ekki til að hitta Wallander, heldur til að taka næturferju yfir til Swinowitze í Póllandi.

Þorleifur hefur þannig frásagnarstíl að það er líkt og hann sé að hugsa upphátt og hann hugsar mikið af því hann veit svo mikið, um sögu og þjóðhætti fyrri alda.  Margir vita mikið en hafa ekki lag á að soretera það áhugaverða frá hinu.  Hitt er einmitt hæfileiki Þorleifs, allar frásagnir hans eru áhugaverðar og skemmtilegar.

Beinakapellan í Faro
Hauskúpum er víða safnað – Beinakapellan í Faro, Portúgal

Hann sagði okkur meðal annars frá merkilegu safni á Skáni sem geymdi hauskúpur mörg hundruð Sama úr nyrstu héruðum Skandinavíu.  Þeim hafði verið safnað til að kanna og/eða sanna yfirburði svokallaðra „langhöfða“ yfir „stutthöfða“, en hinir frumstæðu Samar eru af stutthöfða stofni.

Ekki gat hann þess hvort þeir sem dunda sér við söng í tíma og ótíma, væru almennt af stutthöfða eða langhöfða stofni og ekki heldur hvort allt fólk sem býr á norðlægum slóðum, eins og Íslandi, væru upp til hópa stutthöfðar.

Má þó alveg benda á, að efnahagsmál Íslendinga virðast alla tíð hafa verið í höndum stutthöfða og varla eru vitibornir langhöfðar líklegir til að kjósa stutthöfða yfir ríkisfjármál sín.  Liggur því beint við á álykta að Íslendingar séu stutthöfðar líkt og náttúrubörnin, Samar.

Lundir og landsleikur

Eftir dönsku matarhefðina skelltu margir sér í „nautalund m/bernaise“ og þungu rauðvíni þegar matsalur ferjunnar hafði opnað.  Það truflaði ekki áhugamenn um íslensku landsliðin og sumir horfðu á enn eitt afrek íslenskra boltaíþrótta, sem bragðauka við „tudda & tinto“.

Eftir nætursiglinguna hafði Þorleifur á reiðum höndum stað, sem skynsamlegt væri að stoppa á, til að fá sér morgunverð.  Þetta var í smábænum Medistroje (ísl. stafsetning), en til Medistroje hópast í dag íslenskir golfarar og leika íþrótt sína fyrir lægsta hugsanlegt verð.

Tomasz Stánko
Tomasz Stanko, jazz trompetisti – Medistroje ver heimabær hans

Við Radisson BLU hótelið í Stettin hittum við Oddfellowbróður, sem varð leiðsögumaður okkar um borg sína.  Þetta er gömul, falleg Hansaborg og státar af háu menningarstigi, en lögð hafði verið áhersla á að endurbyggja hana í upprunalegum stíl, eftir hremmingar seinna stríðs.

Okkar beið að syngja tónleikana  í sjálfum Hertogakastalanum, stolti borgarinnar.  Salurinn var ekki stór, sem bæði gladdi og svekkti.  Kosturinn var sá, að 120 manna salur sýnist ekki eins tómur með 30-40 áheyrendum, eins og hefði 300 manna salur verið valinn.

Setinn hver bekkur

Pólsku Oddfellowarnir og gestir þeirra troðfylltu svo salinn, sem varð til þess að kórmenn fylltust metnaði fram yfir allt venjulegt.  Frábær flygill var í salnum og hljómurinn mikill og góður, þó ekki væri salurinn stór.

Castle-of-Pomeranian-Dukes-in-Szczecin
Hertogahöllin í Stettin

Gleði gestanna, sem líkt og Norðurlandabúarnir áttu kannski ekki von á merkilegum söng, fyllti kórinn verðskulduðu stolti.  Eftir lofræðu um hinn fámenna kór, í lok söngs, endaði ræðumaður á orðunum „hvernig farið þið að þessu“?

Eins og nefnt var í síðasta pósti – þegar manni er komið á óvart, er hálfur sigur unninn. Hinir pólsku gestgjafar okkar höfðu sagt okkur að hafa ekki áhyggjur af góðum veitingastað um kvöldið, þeir sæju til þess að við gengjum ekki svangir til hvílu þetta kvöld.

Pólakar pylsur
Þessu líkt var hlaðborðið sem beið okkar eftir söng

Pólverjar eru þekktir fyrir snilli sína í pylsugerð, eins og Reykvíkingar hafa kynnst á síðustu árum.  Ásamt fjölmörgu öðru lostæti höfðu þessir nýjustu vinir okkar hlaðið hvert borðið á fætur öðru af þjóðlegum réttum og ísköldum bjór.

Er hægt að ljúka góðum konsertdegi á fallegri hátt?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s