Íslenskar Rósir á Ítalíu

Nú er orðið langt síðan ég hef setið við pistlaskrif og kemur til að miklar annir hafa verið í fararstjórn, kórastússi og fleiru, utanlands og innan.  Nú verður ráðin bót á.

Kvennakórinn Rósir, frá Hafnarfirði, er aðeins rúmlega tveggja ára gamall.  Það var stórsöngkonan Elín Ósk Óskarsdóttir sem stofnaði kórinn ásamt Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur, grafíker og „leiðtoga par excellence“ og nokkrum nemenda sinna.  Kórinn hefur komið fram tvisvar á ári síðan.

Hin þrautreynda Sigrún Þorgeirsdóttir, söngkona og kórstjóri tók við kórnum seinnipart vetrar og stjórnaði honum á tvennum tónleikum á Ítalíu í lok maí – byrjun júní.  Snillingurinn og ljúfmennið Gunnar Gunnarsson var undirleikari kórsins í ferðinni.

Í landi söngsins.

Það var brosmildur 43ja manna hópur söngkvenna, ásamt nokkrum mökum, sem lenti á Malpensa flugvelli við Milano seint að kvöldi 29. maí og hélt áleiðis í gistingu í litla bænum Garda, við Gardavatn.

Strax næsta dag var komið að fyrri tónleikunum ferðarinnar, í fallegri kirkju við Adige ána, nærri miðborg Verona.

Þegar María Callas settist að í Verona kynntist hún fyrri manni sínum og giftist honum í þessari kirkju.  Vegna þess að hún var grísk-kaþólsk, en ekki rómverk-kaþólsk, eins og mannsefnið, varð sjálf athöfnin að fara fram í lítilli kapellu bakatil.

Það var fallegur hljómur í kirkjunni og góður hópur gesta sem hlýddi á söng Rósanna.  Dagskráin skemmtilega saman sett, með jafnvægi í klassískri tónlist, þjóðlegri íslenskri tónlist, í bland við dægurperlur íslenskar.

 

Vikivaki Valgeirs

Kórkonurnar höfðu fengið að æfa fyrir tónleikana og þá kynnst hinum magnaða hljómi kirkjuskipsins og því að syngja með rafmagnspíanói.  Allt gekk upp og í rútunni, alla leið til hótelsins, var sungið og fagnað ógleymanlegri stundu.

2017-06-01 19.07.47

Næsti dagur var hvíldardagur eftir erfiað törn í löngu flugi, langri rútuferð í kjölfarið fyrsta daginn og löngum tónleikadegi.  Stóri sundlaugargarðurinn við Poiano og góða veðrið veitti því gott tækifæri til að hlaða batteríin fyrir Feneyjaferð daginn eftir.

Feneyjaborg, sú eina í heiminum

Það þurfti að taka daginn snemma til að halda í tónleikaferðina til Feneyja.  Tæplega tveggja stunda akstur skilaði hópnum á rútustæði efst í borginni, þá tók við bátsferð niður í miðborg og svo nokkur gangur á Markúsartorgið, í heitri sól Adríahafsins.

Byrjað var á skoðunarferð undir leiðsögn tveggja heimamanna, fyrst í Markúsarkirkjuna sjálfa, fram hjá bókasafninu og upp með sýkjunum og allt að Rialtobrúnni.  Þaðan var stutt í kirkjuna þar sem syngja átti og hægt var að geyma kórföt og annað dót fyrir síðdegistónleikana.

Í frjása tímanum fram að tónleikum fundu sér allir stað til að snæða hádegisverð og skoða betur hinar dásamlegu búðir Feneyja.  Svo kom stóra stundin.

Það lá fyrir að tónleikar Rósanna yrðu fjáröflunartónleikar til viðgerðar á freskum í lofti kirkjunnar.  Skemmst er frá því að segja að fljótlega fylltist kirkjan af fólki og sumir stóðu.  Ekki sátu allir til loka tónleikanna en alltaf fylltist í sætin sem losnuðu.

Að syngja í kór

Það gefur auga leið hversu stórkostlegt það er að syngja efnisskrana sína fyrir fullu húsi, húsi sem hljómar betur en nokkur annar salur sem sungið hefur verið í, húsi sem geymir gleði og sorgir hundruða ára, hefur verið athvarf þeirra sem þurfa hjálpar að leita í amstri og þrautum dagsins.

Kannski með slíku hugarfari mættu sumir tónleikagesta til að heyra söng Rósanna og þegar Ave Verum Corpus hljómaði féllu tár og auðheyrt var á lófatakinu á eftir að stundin hafði snert við mörgum.  Ave Verum varð því uppklappslag Rósanna og ekki víst að tónlistarsagan geymi annað dæmi um það.

Það sem eftir var ferðarinnar breyttist nú í Sælkeragöngu með ströndum Gardavatns, sælkeramáltiðir snæddar með eðalvínum í Bardolino, Malcésine og í sveitinni.

2017-06-04 19.43.51

Það er fullkomlega öruggt mál, að ferð af þessu tagi myndar meiri samkennd og sterkari hóp, en þann sem lagði af stað í ferðina.  Makar söngkvenna skilja enn betur hvað það er gefandi að syngja saman í kór.  Það var gaman fyrir mig að fá tækifæri til að skipuleggja þessa ferð og fá að vera með frá byrjun til enda – Rósir, takk fyrir mig.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s