Við fórum margar skoðunarferðir á litla bátnum til Dartmouth sumarið 1985 og þeir sem ekki slepptu ferðinni vegna vissu sinnar um sjóveiki höfðu gaman af að heimsækja þennan litla, en fallega hafnarbæ, sem eitt sinn hafði verið.
The Onedin Line
Miðbærinn er ævaforn og hafnarsvæðið þótti svo gamallegt að þegar þættirnir um Onedin skipafélagið voru gerðir, voru hafnarsenurnar teknar þar , fremur en í Liverpool, þar sem þeir áttu þó að gerast.
Höfnin í Liverpool hafði auðvitað tekið stórstígum breytingum í genum aldirnar, en Dartmouth ekki. Báðar stóðu þessar hafnir á árbökkum, önnur á bökkum Merseyárinnar, sem Gerry & The Pacemakers sungu um og hin á bökkum Dartárinnar.

Vegna lítils undirlendis við Dartána hafði „nýji bærinn“ allur risið í brekkunum upp af gamla bænum og því hefur maður ekki á tilfinningunni að bærinn sé annað en þessar þröngu gömlu götur, sem staðist hafa þjóðfélagsbreytingar 300-400 ára.
Eldra en Hressó
Oft fórum við inn á veitingahúsið „Sloping Deck Restaurant“. Nafn staðarins var fullkomið réttnefni, því stæði maður í einu horni matsalarins, var hæpið að maður sæi kverkina í loftinu, í skáhorn á móti. Tilfinningin var eiginlega sú, að nú yrði maður óvart vitni að þeim sögulega atburði, er loftið í matsalnum kæmi niður.
Dartmouth missti mikilvægi sitt sem hafnarbær er skip stækkuðu og ristu dýpra, því ósinn er ekki það djúpur að um hann verði farið á stóru skipi nema á stórstreymi. Því síður var áin nógu breið til að hafskip nútímans gætu með góðu móti athafnað sig þar. Auðvitað voru svo varnarvirki frá miðöldum beggja vegna árinnar, þar sem ósinn er þrengstur.
Kingswear
Yfir ána gekk svo gamaldags Missisippi gufubátur með vatnahjóli á hvorri síðu. Þetta var og er ekki algeng sjón lengur en við tókum auðvitað bátinn yfir. Þaðan lá leiðin heim til Torquay, frá bænum Kingswear, sem stendur á austurbakka árinnar.

Ferðamátinn sem þá tók við var einnig ögn framandi. Síðasta gufulestin sem þá gekk milli sveita á suður-Englandi, gekk frá Kingswear til Paignton, næsta bæjar og sem samvaxinn er við Torquay.
Í síðustu ferðinni fengum við á okkur skýfall, í mildu veðri þó, svo engum varð beinlínis kalt. Er beðið var eftir lestinni söng allur hópurinn svo undir tók, „I´m singin in the rain“.
Í næsta pistli verður þráðurinn tekinn upp á suðurströnd Portúgals, í bænum Albufeira í Algarve.