Á sjó

Ég sagði áður frá bátsferð sem farin var yfir til Gurensey á Ermasundi og átti að verða fastur liður í tveggja vikna dagskránni.  Þið getið kannski ímyndað ykkur hversvegna aðeins var farin þessi eina ferð um sumarið.

Ný bátsferð

Ég fann annað fyrirtæki sem fór á litlum eikarbáti yfir Torbay flóann, fyrir nesið og upp í mynni árinnar Dart, sem þar með ber sama heiti og Dartmoorheiðin og fallega þorpið sem við hana stendur, Dartmouth eða Dartós, s.br. Blönduós.  Segi menn svo að Blönduós sé ekki „cosmopolitan“ bær í smæð sinni.

Brixham
Við sigldum fram hjá Brixham

Það var jafnan nokkur strekkingur þegar komið var fyrir vestari höfðann, sem markaði Torbay flóann.  Ekkert vont í sjóinn en gat orðið svalt á litlum báti, þar sem ekki var mikið skjól.  Þetta vissu Bretarnir og voru æfinlega búnir að ná þessum fáu sætum sem þó gáfu örlítið skjól.

Koníak, sykur og te

Áhöfnin bauð upp á kaffi eða te eins og hver vildi og einnig var hægt að kaupa sterka drykki og bjór.  Ég hafði við svipaðar aðstæður kynnst því að setja koníak og sykur út í sterkt te.  Þetta er hinn besti drykkur og hvatti ég alla sem gátu hugsað sér, að reyna þetta.

Ekki þurfti mikið að brína landann til að smakka og fór svo að sala stórjókst á koníaki um borð þetta sumar.  Þegar ég mætti í síðustu ferðina var ég ávarpaður sérstaklega og tekinn inn í „The International Courvoisier Club“ og afhent vildarkort þeirra, fyrir ötula sölu á þessum eðaldrykk.  Ég gat því hampað því korti áður en ég fékk fyrsta kredit kortið mitt.

Að sigla inn í minni Dartárinnar og upp eftir henni er stórkostleg sjón.  Dartmouth er ævagamalt þorp og fallegt.  Beint á móti kúrir annað ennþá minna sem heitir Kingswear.  Er komið var innar eftir ánni blasti við stórt og fallegt, hvítt hús, ríkulegt og hátimbrað.

Agatha Christie

Þetta var síðasta heimili skáldkonunnar Agatha Christie og þarna bjó hún þegar hún týndist 12. janúar 1976.  Sumir hyggja að þar hafi hún sjálf sviðsett sína hinstu ráðgátu. Agatha Christie var fædd í Torquay 15. september 1890.  Hún var öðluð 1971 og var eftir það „Dame Agatha Christie“.

Hús Christie - stærri
Húsið var opnað sem safn 2009.

Hún gaf út 66 sakamálasögur og 24 bækur með „smásögum“ af Hercule Poirot og Miss Marble.  Heimsmetabók Guinness segir hana söluhæsta rithöfund allra tíma, selst hafi yfir tveir miljarðar titla eftir hana.

Eitt af leikritum hennar, Músagildran var frumsýnt í London 25. nóvember 1952 og gengur enn, eftir meir en 25.000 sýningar og árið 2013 sammæltust rúmlega 600 „krimmahöfundar“ víðsvegar um heiminn, um að sagan hennar „The Murder of Roger Ackroyd“ væri besti krimmi allra tíma.

Meira um Dartmoor í næsta pistli.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s