Þrjár sveitakrár á einu kvöldi

Sú ferð sem aldrei féll niður þetta fyrsta sumar mitt í fararstjórn, vegna of lítillar þátttöku, var kvöldferðin á þrjár sveitakrár í nágrenni Torquay, svo undarlega sem það hljómar.  Til upprifjunar var bjór bannaður á Íslandi árið 1985.  Bjór var því eitt af tilhlökkunarefnum fyrir margan Íslendinginn, sem var á leið til útlanda.

Ég var ekki og er ekki enn, það sem sumir kalla „bjórmaður“.  Bjórmettuð gólfteppi á Lundúnapöbbum vekja mér alltaf hálfgerða andstyggð.  Manni finnst sulla í hverju spori eins og hjá Gunnlaugi Ormstungu forðum.  Á þeim tíma bættist líka við að sígarettunotkun á samkomustöðum var svo mikil að mann sveið í augu eftir kvöldið.

Skemmtileg umgjörð

Þessar kvöldheimsóknir, á stórar og persónulegar sveitakrár í Devon, voru hinsvegar afskaplega skemmtilegar.  Krárnar voru rúmgóðar og mátti sjá að það hafði margsinnis verið aukið við plássið.  Krókur hér og útskot þar, tröppur hér og hallandi gólf annarsstaðar og lyktin var ekki þrúgandi.

Bjórkranar

Það var ekki uppspennt tónlist á staðnum, lýsingin temmileg og ágætur matur sumsstaðar, til viðbótar við bjórinn.  Allsstaðar var nóg af sætum og borðum og heimamenn héngu flestir við barborðið sjálft og ræddu „boltann“, síðustu leiktíð, eða þá næstu.  Torquay liðið komst upp í fyrstu deild sumarið eftir og féll aftur jafn hratt.

Brian, rútubílstjórinn sem fór með mér í flestar þessar ferðir, var ötull við segja mér og farþegunum frá sérkennum og sögu hvers staðar sem heimsóttur var.  Hann varð þó fullkomlega orðlaus í eitt skiptið þegar komið var á krá númer tvö.  Þar voru einna bestar veitingarnar og því var oft staldrað þar lengur en á hinum tveim.

Þeyttur rjómi með Elephant

Einn bjóráhugamaðurinn var þarna kominn með Elephant í glas, sem þá gat farið yfir 9% í alkoholmagni.  Sem hann fikrar sig að borðinu til frúarinnar sér hann fersk jarðaber í kælingu.  Hann kaupir sér skál og fær þeyttan rjóma út á.  Við að sjá samsetningu þessa málsverðar missti Brian bæði andlit og mál.

Elephant

Í einni af síðustu ferðum sumarsins var íslenskur kaupsýslumaður, sem þekkti vel til á Englandi.  Þau hjón höfðu ekki löngun til að fara á sólarströnd en vildu rifja upp gömul kynni við England, höfðu reyndar aldrei til Devon komið.

Kaupsýslumaðurinn vissi alveg hvernig svona „pöbbaferð“ yrði og ætlaði ekki að missa af henni.  Hann hvatti hreinlega alla aðra farþega til að koma með.  Maðurinn er þekktur fyrir að vera mikill gleðigjafi og það var orðin indæl stemmning í rútunni strax eftir fyrsta stopp.

Rútubílasöngur

Hinsvegar varð óvenju mikið stúss við að fá alla farþegana inn í rútu eftir síðasta pöbbinn. Þegar loks allir voru komnir um borð, kom gleðigjafinn á mikilli ferð aftur út og spurði hvort hann mætti ekki skjótast örstutta stund aftur inn, hann þyrfti að „redda“ svolitlu.

Það er einungis skynsamlegt fyrir hverja rútuferð, stutta eða langa, að skreppa á WC og ég gat ekki amast við því að hann skytist aðeins inn.  Eftir ótrúlega stutta stund birtist hann aftur við rútuna og var nú með einn og hálfan kassa af bjór til heimferðarinnar, rúmlega bjór á mann.

 

Það má geta nærri að nú jókst enn á gleðilætin í þessari heimferð og fljótlega var farið að syngja rútubílaþríundir aftur í.  Við það brast rútubílstjóri kvöldsins í söng og flutti okkur með þokkafullri bariton röddu lagið „I´ve been a wild rover for many a year“ (Ég þoli´ekki lengur að þvælast á sjó – Jónas Árnason).

Þessu inngripi bílstjórans okkar svaraði íslenski kaupsýslumaðurinn með silkimjúkri söngrödd sinni, er hann söng lagið „18 Yellow Roses“ í míkrafóninn og nú vita allir þeir sem þekkja manninn dável, um hvern er ritað.

Fleiri sögur í næstu viku.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s