„Ég hef aldrei vitað aðra eins sjóferð“

Eftirminnilegasta ferðin frá sumrinu 1985 er án nokkurs vafa fyrsta stóra skoðunarferðin, tveim dögum eftir bæjarferðina.  Vafalítið hefði hún orðið það einnig, sem fyrsta alvöru skoðunarferðin mín á ferlinum, þó ekki hefðu þau ósköp gengið á, sem staðreynd varð.

Nýtt ferðafyrirtæki var að hefja dagsferðir yfir til Guernsay, á Ermasundi.  Glænýr skíðabátur „flying boat“ eins og Bretarnir kölluðu hann hafði verið keyptur og átti að vera einn og hálfan tíma á milli lands og eyjar.

Skíðabátur
Hann var hastur þessi farkostur.

Þeir höfðu aðeins farið eina ferð áður er Íslendingarnir mættu, fern hjón úr Vestmannaeyjum, tvær vinkonur frá Sauðárkróki og fleira fólk sem ég ekki man hvert var. Þetta var hin skemmtilegasta ferð yfir til Guernsey í fallegu veðri, enginn sjóveikur þó hratt væri farið yfir.

Midsommer Murders

Seinna varð Guernsey þekkt í Ríkissjónvarpinu vegna þáttanna af einkaspæjaranum Bergerac, sem leikinn var af John Nettles.  John Nettles varð svo enn frægari fyrir að hafa ráðið fleiri morðgátur í Midsommer, en tölu verður á komið.

Báturinn átti að snúa til baka kl. 18:00 og ég leiddi hópinn á lítið torg framan við eina stórverslunina í ferjubænum og tilkynnti að hingað yrðu allir að vera komnir 15 mín. fyrir sex.  Þaðan gátum við séð bátinn okkar og engin leið að villast um bátahöfnina.

Coast Media: Visit Guernsey Images: Pictures Chris George
Höfnin í Guernsay

Fríríki

Nú var gengið á rútustöð, því ætlunin var að fara í tveggja tíma rútuferð um áhugaverðustu staði eyjarinnar.  Eins og Jersey, er Guernsey fríríki og þar eru nokkur ummerki frá seinna stríði, neðanjarðar sjúkrahús, fallbyssuhreiður og katakombur, sem Þjóðverjar létu grafa.

Um þessar stríðsminjar gengum við undir ágætri leiðsögn heimamanns, sem mundi stríðsárin vel.  Hann lét þess getið að í hlöðnum veggjum katakombanna lægju jarðneskar leyfar margra þeirra bresku og frönsku fanga sem ekki lifðu verkið af, vegna vannæringar og annarra fára, er yfir þá gengu.

Sjúkrahús
Sjúkrahúsið

Er komið var til baka í litla hafnarbæinn var farið í verslanir, því sannanlega var fríríkið eftirsóknarvert verslunarland.  Kl. 15 mínútur í sex voru allir mættir nema stöllurnar frá Sauðárkróki.  Við dokuðum nokkrar mínútur en er við sáum að bátsverjar voru farnir að undirbúa brottför skunduðum við um borð.

Sjóferðin sem ekki var farin

Þegar báturinn hafði beðið til 5 mín yfir, stökk ég í land og óskaði öðrum góðrar heimferðar.  Ástæða þess að ég gat ekki skilið þær eftir var að þetta voru líklega einu farþegarnir í hópnum, sem ekki töluðu stakt orð í ensku.  Seinna skildi ég menntskælinga eftir í Portúgal, fremur en að seinka flugavallarrútu, enda þeir fullkomlega færir um að bjarga sér og gerðu það.

Ég stillti mér upp á hinum fyrirfram ákveðna stað og beið nokkra stund og viti menn, þarna birtust þær, himinsælar með viðskipti dagsins og spurðu hvar allir hinir væru, eða „erum við bara fyrstar“?  Ég sagði þeim hvers kyns var og nú komu tvö svör frá tveim einstaklingum.  „Nú, var það ekki klukkan 19:00?“ og „Æ, við bara gleymdum okkur alveg í búðunum“.

historical-guernsey
Þorpið að verða til í byrjun síðustu aldar.

Með skiptilykil og skrall

Það er af hinum hópnum að segja, að það varð vitlaust í sjóinn á heimleið, skipstjórinn taldi aðalatriðið að halda áætlun og vera einn og hálfan tíma heim.  Það endaði með því að vélin drap á sér í einu högginu og nú rak hópinn fyrir veðri og vindum, þar til vélstjórinn úr Vestmannaeyjahópnum brá sér niður ég vélarrúm og kom henni í gang.

Ég gisti með stássmeyjunum frá Sauðárkróki um nóttina og svo fengum við flug með sex sæta vél yfir sundið morguninn eftir.  Útsýn lét þær greiða allan kostnað af minni dvöl líka og ferðin til fríríkisins var orðin ærið dýr fyrir þær, er upp var staðið.

Meira í næstu viku.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s