Brúnir Íslendingar til Englands

Á meðan sumarið 1985 var hið vindasamasta á Suður Englandi í manna minnum, þá var það eitthvert það sólríkasta á Íslandi.  Það var því hálf undarlegt að taka á móti íslensku gestunum brúnum og sællegum á heathrow flugvelli og skila þeim þangað aftur tveim vikum seinna fölbleikum eftir dvölina á Torquay.

Hið rómaða Devon

Devon-L-500px
Strandbær í Devon

Það væri þó mikil synd að tala þannig um Torbay flóann og Devon héraðið á Englandi að menn teldu að þangað væri fásinna að ferðast.  Öðru nær, náttúra þarna er bæði fjölbreytt og falleg, litlu þorpin sem kúra við þröngan sveitaveg, eða klettótta strönd eru ógleymanleg sakir friðsældar og fegurðar.

Fólkið er þægilegt og hjálplegt, ég man aldrei eftir að flautað væri á mig þegar ég var að klaufast í vinstri umferðinni, með gírstöngina í vitlausri hendi og ökumanninn í bílnum sem ég var að mæta sitjandi í farþegasætinu.

Dartmoor

Ferðin yfir Dartmoorheiði tók langan tíma, minnti mig á leiðina frá Blönduósi á Hveravelli, fyrir virkjun.  Fyrsta stopp var á elsta kaffihúsi heiðarinnar, einhverskonar Fornahvammi, hefði hann staðið í Blöndudal en ekki Borgarfirði.

Dartmoor þyrnigróður
Það eitthvað seyðandi við öll víðerni, þó ekki sé á Íslandi

Stóri munurinn var gróðurfarið, lágur þyrnigróður líkur einiberjarunnum, en brúnleitur í stað græna litarins.  Er leið á sumarið blómstraði hann fallega eins og Lambagras.  Svo voru hvítu rollurnar með hala og allar kollóttar.

Þar sem heiðin var hæst átti sagan af Baskerville hundinum að hafa gerst.  Þaðan sá vítt yfir, meðal annars til bæjarins Tavistock í vestri, fæðingarbæjar Sir Fransis Drake.  Einnig mátti greina hæstu byggingar Plymouth borgar í suðri.

Sjóræningjar

Gullna Hindin
Gullna Hindin

Eins og aðrir strákar hafði ég lesið sjóræningjasögur, flestar ritaðar af enskum eða amerískum höfundum.  Þegar ég seinna kynntist sögu Portúgals og Spánar kom í ljós að Sir Fransis var ekkert annað en sjóræningi, hann bara stal í nafni bresku krúnunnar og var því aðlaður fyrir.

Plymouth var ein þeirra borga sem fór hvað verst út úr Síðari Heimsstyrjöldinni.  Þar höfðu verið skipasmíðastöðvar og skipalægi og því mikilvægt fyrir Þjóðverja að gera þar sem mestan usla.  Ekki gerðu Bretar mikið úr þeim ósköpum öllum, uppbyggingin var meira atriði en hver hafði drepið hvern.

Þorskastríðin

Ég hafði hinsvegar mjög gaman að því að vekja athygli Bretanna á að freigátan þeirra Andorra, sem þar lá gjarnan við landfestar, hafi einmitt verið öflugasta skipið þeirra, sem tapaði síðasta „Þorskastríði“ við Íslendinga.

frigate_ships
Freigáta í Plymouthhöfn

Til að núa salti í sárin sagði ég þeim einnig að íslensku varðskipin hefðu öll verið tryggð hjá Lloyds í Englandi og þeir því greitt tjón af öllum ásiglingunum sjálfir.

Mörgum þótti gott að versla í Plymouth en fátt annað hafði þar aðdráttarafl.  Heimleiðin lá með ströndinni og var falleg þó hlykkjótt og seinfarin væri.

Það er eiginlega svo gaman að rifja þessa mánuði upp, að líklega held ég áfram með frásagnir á næstu vikum.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s