Þetta byrjaði allt með einu stuttu símtali, eins og svo margt annað sem ekki er ætlað að verða grundvallarbreyting til framtíðar. Sumarstarf tónlistarkennarans breyttist í aðalstarf.
Frumkvöðullinn
Ingólfur Guðbrandsson hafði stofnað Frí-klúbb Útsýnar, sem þá var mest áberandi ferðaskrifstofan á Íslandi, ásamt ferðaskrifstofunni Sunnu og nýstofnuðum Samvinnuferðum Landsýn.
Erlingur Karlsson íþróttakennari var í forsvari fyrir starfsemi Frí-klúbbsins á Costa del Sol. Við vorum góðir kunningjar, eftir ársdvöl hans á Blönduósi. Hann tók vel í að fá mig með sér til starfa á Spánarströndum.
Þegar Ingólfur heyrði nafnið mitt mun hann hafa sagt “þennan mann ætla ég að senda til Englands og láta hann sjá um nýja staðinn okkar þar”. Staðurinn var Torbay svæðið og þáttaröðin um Hótel Tindastól, með John Cleese, látin gerast þar. Ég hafði aldrei til Englands komið, en Ingólfur hafði pata af enskukunnáttu minni, eftir ársdvöl í Ameríku.
Enska Rivieran
Það næsta sem ég vissi var að ég var mættur á stuttan hádegisfund einhvern miðvikudag, sagt að tala við Pétur Björnsson eðalfararstjóra, sem á veturna vann einnig á skrifstofu Útsýnar. Yfir uppbakaðri blómkálssúpu á Hressó var mér kennt að vera fararstjóri. Þar var og gengið frá því að ég yrði eini fararstjórinn á “Ensku Rivíerunni”.
Öndvegiskonan Kristín Aðalsteinsdóttir, sem var hægri hönd Ingólfs, sagðist mundu senda mig út fjórum dögum á undan fyrsta hópnum, svo ég væri farinn að rata eitthvað, búinn að finna öll hótelin, leigja bíl fyrir sumarið, því langt var á milli hótela og finna einhverjar áhugaverðar skoðunarferðir.

Ýmislegt má finna að því hvernig við stöndum að ferðamennsku hér á landi í dag, en 1985 voru ferðamálayfirvöld við Torbay flóann mjög fornaldarleg í hugmyndum sínum, eða hugmyndaleysi. Strandbæirnir við flóann eru þrír, Torquay, Paignton og Brixham, en þar var hægt að skoða eftirlíkingu af Gullnu hindinni, skipi Sir Francis Drake.
Torquay
Það átti að heita að bærinn Torquay hefði mesta aðdráttaraflið á Rivierunni og þangað átti að senda Íslendingana. Þangað mættu líka fyrst og fremst Bretarnir sjálfir og hótel og önnur þjónusta miðaðist við þá. Á steinpöllum eða í stórgrýttri fjöru sátu þeir sem höfðu komið til Torquay árum saman og jafnvel kynslóðum, frá tímum Viktoríu drottningar og voru ekki að velta fyrir sér skoðunarferðum í fríinu.
Heimamenn töldu að sumarið 1985 væri vindasamasta sumar í nærri hálfa öld. Þetta hafði þó engin áhrif bresku gestina, sem sátu sem fastast niðri við sjó og flugust á við fjúkandi dagblaðið sitt fram undir hádegið, til að breyta ekki út af venjunni. Þetta var fyrsta reynsla mín af “strandlífi” og ég undraðist mjög hvað gæti verið eftirsóknarvert við svona frí.
Á umboðsskrifstofunni fékk ég lista yfir dægradvöl í Torquay og nágrenni, nafn á rútufyrirtæki og bílaleigu, því Íslendingar eru óhræddir við að keyra á Englandi þó ankanalegt sé.
Plastkort
Sum hótelanna voru íbúðarhótel og því þurfti ég að finna matvöruverslun á nágrenninu, banka og veitingahús. Þetta var sumarið sem Íslendingar fóru að eignast Kreditkort og því þurfti ég að geta bent á þessa tvo hraðbanka sem þá var búið að setja upp við aðalgötuna. Sjálfur hafði ég aldrei séð þessi kort fyrr en í höndum einhvers íslensku farþeganna.

Áður en fyrsti hópurinn kom út var ég tilbúinn með ferðadagskrá, sem gerði ráð fyrir fimm skoðunarferðum um dvalartímann. Dagsferð yfir Darmoorheiði, bátsferð til Guernsey, 1/2 dagsferð um bæinn, “þriggja pöbba ferð” að kvöldi og kvöldverð í nýjasta “Klúbbnum”. Eftir eina æfintýralega ferð til Guernsey skipti ég yfir í notalega bátsferð til Dartmouth og svo var tekin síðasta kolalestin, sem starfrækt var á Suður-Englandi, til baka.
Aðeins var boðið upp á tveggja vikna dvöl hjá Útsýn og flogið á Heathrow. Milli Torquay og Heathrow var og er enn um fjögurra kl.st. akstur. Samanborið við beint leiguflug og hálftíma akstur á hótel, var þetta ekki sérlega aðlaðandi upphaf að frídögum.
Meira af þessu í næstu viku.