Í síðasta pistli var ég a vitna í bréf Leopolds Mozarts, föður Wolfgang Amadeus Mozarts. Trúlega gerði faðirinn ekki minna úr afrekum sonarins en tilefni var til.
En bara sú staðreynd að þessum óbreytta tónlistarmanni og syni hans var boðið til konungshalla mestu stórþjóða Evrópu,
sýnir hver bylgja hrifningar gekk um álfuna vegna þessa drengs. Leopold hefði aldrei fengið konungaáheyrn nema í fylgd sonarins.
Í þessum pistli ætla ég að vitna í bréf Mozarts sjálfs, frá æsku og unglingsárum. Kannski verða bréf hans til vina og velgjörðarmanna, eftir að hann hafði nánast misst tökin á daglega lífinu, tilefni þriðja pistils.

Týról 13. desember 1769 (að nálgast 14. aldursárið)
„Elsku mamma. Hjarta mitt hoppar af kæti yfir því hve allt er skemmtilegt, hve hlýtt er í vagninum og vagnstjórinn góður náungi. … ég vil sýna mömmu að ég viti að mér ber skylda til að votta henni dýpstu virðingu sem hlýðinn sonur hennar“.
(Í sömu ferð) Milano, 26. janúar 1770
„Óperan í Mantova var indæl. Prímadonnan syngur vel, en fjörlaust… 2. söngkonan er eins og hermaður með bylmingsrödd, en syngur ekki illa. Aðalsöngvarinn syngur vel en röddin er ójöfn“.
Þetta skrifar hann daginn fyrir 14 ára afmælið sitt. Það er samt líkara því að hámenntaður söngkennari sé að segja frá, en 14 ára gamall hljóðfæranemandi.
Rómarborg 14. apríl 1770. Til móður og systur.
„Ó, ég á svo bágt, það er aðeins eitt rúm í þessum næturstað og getur mamma rétt ímyndað sér, að ekki er mikill friður í rúminu við hliðina á pabba“.

Napólí, 5. júní 1770. Til systurinnar.
„Leikhúsið er fallegt. Kóngurinn er napólitanskur ruddi og stendur alltaf á skemli í leikhúsinu, til að sýnast aðeins hærri en drottningin. Drottningin er falleg og kurteis. Hún heilsaði mér sex sinnum a.m.k. á skemmtigöngunni„.
(Skemmtigangan er sá siður í erlendum óperuhúsum, í hléunum, að spássera hring eftir hring í stórum og björtum speglasal, kinnka kolli til kunnugra og málsmetandi í stað þess að standa á spjalli og hefta ferðir annarra)
Bologna 21. ágúst 1770. Til móður og systur.
„Við höfðum þann heiður að kynnast „svartmunki“ sem er sagður heilagur. Ég trúi því samt ekki, því hann drekkur oft súkkulaði með morgunmatnum og bætir síðan á sig stóru glasi af sterku spænsku víni, ofan á annað vín og ég hef séð hann láta í sig að auki tvær stórar sneiðar af melónu, ferskju, perur, fimm bolla af kaffi, stóran disk af negulnöglum og tvær skálar barmafullar af mjólk með sítrónum“.

München, 14. janúar 1775. Til móður og systur.
„Guði sé lof! Óperan mín var flutt í gær og fékk svo góðar viðtökur að ég get ekki með nokkru móti lýst fagnaðarlátunum fyrir mömmu“. …. Því næst urðu lætin eftir hverja aríu, lófatakið og hrópin: „VIVA MAESTRO“, alveg óskapleg“.
…. Á eftir fór ég með pabba inn í sal, sem kjörfurstinn og hirð hans ganga um og fékk að kyssa hendur hans göfgi kjörfurstans og frúar hans og annars tignarfólks, sem allt var hið mildilegasta í minn garð…..“
Þarna vantar Mozart 14 daga í að verða 19 ára. Hann er að verða fullvaxta og nú er eins gott fyrir hann að hverfa til þeirrar stöðu sem tónlistarmönnum var ásköpuð, að vera hluti af þjónustufólki yfirstéttarinnar.
Á dögum Mozarts var Salzburg sjálfstætt erkibiskupsdæmi og heyrði fremur undir Róm en Austurríki. Hér á eftir fylgja aðeins ávarpsorðin sem Mozart notar til að hefja bréf sitt á, til erkibiskupsins af Salzburg, Signore Colloredo.

Salzburg, 1. ágúst 1777.
„Yðar hágöfugi, náðugi og mikilsvirti herra fursti Hins heilaga rómverska ríkis! Náðugur landsdrottinn vor og herra Herra“.
Hvílík auðmýkt og titlatog. Á þessum tíma er Leopold í fullu starfi hjá erkibisknum en Mozart í hálfu. Í bréfinu er hann að biðja um leyfi, fyrir hönd þeirra beggja, til að fara í tónleikaferð þá um haustið. Auðmýktin og undirgefnin er sett í hverja einust setningu bréfsins og reynt að sýna fram á að fjölskyldan sé peningaþurfi, án þess auðvitað að kvarta yfir lélegum launum.
Mozart fór einn með móður sinni en Leopold sat heima. Þótti það ráðlegra.
Í næstu pistlum er gert hlé á tilvitnunum í bréf Mozarts, en þess í stað ætla ég að endurbirta tveggja ára gamla pistla, þar sem ég segi frá ferð minni 17 ára gömlum til Ohio í Bandaríkjunum.