Ég hef enga tölu á því hve marga kóra ég hef aðstoðað við að skipuleggja söngferð til útlanda. Fyrir rúmum 30 árum, þegar ég byrjaði í ferðageiranum fór mikill tími bara í að finna tengiliði, tónleikahús og gistingu við hæfi.
Fagmennska
Nú, 20 árum seinna vinn ég nánast allar ferðir í samstarfi við tónleikahaldara, hvern á sínum stað. Allt eru þetta skrifstofur sem sérhæfa sig í því að skipuleggja og auglýsa tónleika fyrir kóra eða hljómsveitir, hvaðan sem er úr heiminum.
Þessar skrifstofur hafa úr mörgum tónleikahúsum eða kirkjum að velja og einnig hótel eða aðra gistingu, í hvaða verðflokki sem er. Í öllum tilfellum eru mínir tengiliðir fólk sem kemur úr tónlistarheiminum, þekkir þarfirnar og skilur greiðslugetuna.
Helsinki, Tallinn og Feneyjar
Í ár verða þrír kórar á mínum vegum að flytja tónlist sína í sex löndum. Einn syngur í Helsinki og Tallinn í fjögurra nátta ferð, hittir hugsanlega annan kirkjukór í Eistlandi og verður gestur Helsinkiborgar á 100 ára frelsisafmæli hennar.

Ungur og efnilegur kvennakór, sem Elín Ósk Óskarsdóttir hefur stofnað og leiðir, mun heimsækja land söngsins, Ítalíu. Þær munu syngja tónleika í Feneyjum og víðar í Venetohéraðinu. Þær munu einnig njóta alls þess besta sem Gardasvæðið hefur upp á að bjóða í náttúrufegurð og mannlífi.
Góðgerðartónleikar
Þá mun lítill karlakór Oddfellowstúkunnar Hallveigar nr.3, halda tónleika í Kaupmannahöfn, Stettin í Póllandi og sjálfri Berlín. Þessir herramenn munu meðal annars fá tækifæri til að troða upp í Oddfellow Palæet í Kaupmannahöfn, sem fyrir tíð Tivolisalarins og seinna Óperuhússins, var merkasti tónleikasalur borgarinnar.

Að viðbættri þessari upptalningu eru fjölmargir íslenskir kórar á ferð og flugi vítt og breitt um Evrópu. Þeir eru ýmist að taka þátt í kórahátíðum, heimsækja vinabæi eða aðra kóra. Allt sýnir þetta hve öflugt kórastarf þrífst hér á landi og gaman að geta þess að íslenskir kórar þykja alltaf áhugaverðir og vel syngjandi hvar sem þeir fara.
Þegar líður að lokum næsta árs ætlum við svo að bjóða upp á ferð á Jólamarkaðinn í Salzburg. Hver veit nema einhver kórinn taki sig upp og komi með, syngi í fæðingarbæ Mozarts og drekki í sig andrúmsloft Aðventunnar þar, í stað þess að keppa við allt kraðakið í jólatónleikunum hér heima.