Portó kom á óvart

Degi var tekið að halla þegar við lentum í Portó, en rútan beið okkar og bílstjórinn sem átti eftir að vera með okkur fyrstu fjóra daga Haustferðarinnar til Portúgals.  35 manna hópur var að koma í fyrstu ferðina af þessu tagi og spenningur í hópnum, enda flestir að koma til þessa hluta Portúgals í fyrsta sinni.

Við ókum hraðbrautina frá flugvelli að norð-austurhluta borgarinnar, framhjá leikvangi Porto liðsins og síðan niður í þröngt dalverpið sem borgin stendur í, undir nýjustu brúna, sem reist var 1998 í tilefni heimssýningarinnar og nálguðumst gömlu borgina úr austri, það var fögur sjón.

Að aka inn í Porto

Leið okkar lá suður yfir ána og við ókum eftir neðra þilfari Dom Luis I. brúarinnar yfir í Vila Nova de Gaia, þar sem allir portvínskjallararnir raða sér um brekkurnar upp frá ánni.

Aðeins um 200 metrum frá brúnni var veitingastaðurinn sem við áttum bókaðan og matseðillinn var portúgalskt “tapas” með “Vinho Verde” og Douro rauðvínum.

Manúel, sem tók á móti okkur er þriðji ættliðurinn sem rekur nú staðinn, á móti föður sínum, sem gjarnan tekur sér frí á kvöldin nú orðið.
Ég hafði beðið um Vinho Verde í fordrykk og gerði ráð fyrir léttu víni með háu sýrustigi.  Manúel sagði að nú væru breyttir tímar og flestir reyndu að hafa grænu vínin sín (vinho verde) mýkri og fylltari.

Beint frá býli

Hann tók líka fram að þeir feðgar kappkostuðu að versla eingöngu við litla framleiðendur bæði í mat og vínum, við myndum því tæpast þekkja nein vínanna sem í boði væru.  Trúlega værum við líka, í fyrsta sinn að smakka suma réttina, sem hann setti saman úr kjötvöru eða fiski, beint frá bónda eða fiskimanni.

Skemmst er frá því að segja að Vinho Verdi vakti svo mikla hrifningu að margir kusu það eitt af vínseðli, það sem eftir var ferðar og biðu reyndar gjarnan eftir að fá sömu tegund og fyrsta kvöldið, sem aldrei varð, svo smá er framleiðslan.

Eftir kvöldverð var ekin 104 km. leið í gististað, sumarhöll konungsfjölskyldunnar, í Bussaco fjalli.  Flest herbergin eru stór miðað við nútíma hótel og húsgögn öll frá fyrri öldum, þó rúmdýnur séu nýjar.

Eftir morgunverð næsta dag gengum við saman út á hamrabrún, þar sem Lord Wellington stóð er hann stýrði árásum portúgalska hersins og breskra riddara í bardaga við heri Napóleons 1810.  Franski herinn var hrakinn til baka inn á spænskt land, það sem eftir var af örþreyttum og hungruðum fótgönguliðum.

Svo var ekið til hinnar fornu háskólaborgar, Coimbra og upp á kastalahæðina, sem nú ætti frekar að kalla Háskólahæð.  Þar voru háskólastúdentar mest áberandi og sumir í hinum aldna skólabúningi.

Þaðan var ekinn sveitavegurinn niður til strandbæjarins Figueira da Foz og nú vorum við óheppin að koma þar á mánudegi.  Götur voru auðar og þar sem komið var fram á hádegi voru flestar verslanir lokaðar í bilið.  Á laugardegi eða sunnudegi hefði bærinn iðað af mannlífi.

Hádegisverður var á eigin vegum og kl. 17:00 ókum við aftur frá ströndinni og til Anadía, þar sem flestallir vínkjallarar Bairrada og Dao héraðanna eru staðsettir.

Fjölskyldusagan

Glæsileg kona, afkomandi eins af bræðrunum þremur, sem stofnuðu þennan vínkjallara, tók á móti okkur, sagði okkur sögu fjölskyldunnar og fyrirtækisins.  Þó komið væri að kvöldmat var starfsemi í gangi, gerjun í tönkum og nýbúið að slökkva á kvörninni sem pressar þrúgurnar.

Skoðuninni lauk í fallegum matsal, þar sem okkar beið kvöldverður, aðalrétturinn sérréttur sveitarinnar, heilgrillaður mjólkurgrís og með honum var drukkið freyðivín til að létta líkamanum meltinguna á svo feitu kjöti.  Með öðrum réttum voru kynnt tvö af flaggskipum kjallarans, rauðvínin frá Bairrada og Dao.

Ég sé að engin leið er að segja þessa ferðasögu í fáum orðum og næsti pistill verður því einnig helgaður þessari skemmtilegu ferð.

Leave a Reply

%d bloggers like this: