Eftir frjálsan dag á laugardegi var haldið í mjög framandi rútuferð í fjöllin ofan við Pistioa. Aðeins er um 40 mínútna akstur þangað og þá er maður kominn á eina af mörgum Pílagrímaleiðum Toskanahéraðs.
Áberandi var, að mun kaldara var í fjallaþorpinu en við hótelið okkar, fyrir stuttbuxnaklædda ferðalanga, en það átti eftir að breytast.
Suðurgöngur, kannski upphaf ferðamennskunnar
Genginn var pílagrímastígurinn niður í næsta þorp og tók það um eina klukkustund. Lausamöl á stígnum gerði það að verkum að fara þurfti gætilega og víða mátti sjá að villisvín höfðu verið á vappi um nóttina.

Það var friðsæl sjón sem mætti okkur er við komum í litla Pílagrímaþorpið Spedoletto og viti menn, á kirkjutorginu stóð opinn sendibíll með margsháttar söluvarning og sölumaðurinn tók greiðslukort. Sá maður átti góðan dag þegar íslenskar konur höfðu lokið viðskipum sínum.

Öld Pílagrímanna sem sagt horfin, en þó ekki. Ég fékk að líta í gömlu gistiheimilin, sem kirkjan hafði reist yfir pílagríma Norður-Evrópu og enn þjóna sem gisting fyrir ferðamenn, þó sumum hafi reyndar verið breytt í heimili eða helgarhús.
Messu var nýlega lokið í kirkjunni og sumir kirkjugesta að spjalli þegar hópinn bar að. Bleikskinna siglfirðingarnir vöktu ómælda athygli og þá var óhjákvæmilegt að syngja Vatnsdælingastemmu í 10. sinn.

Rútan flutti okkur úr fjöllunum og niður í Pistoia og þar beið okkar ríkulegur heimilsmatur á einu torginu. Sangiovesi rauðvínsþrúgan gerði einnig sitt til að öll þreyta hvarf sem dögg fyrir sólu og fólk varð aftur léttstígt er haldið var til rútu, sem flutti okkur heim á hótel.
Það er hald manna að enginn maður a.m.k. þekktur á alþjóðavísu, hafi haft hærri greindarvísitölu en Leonardo da Vinci. Í viðbót við Monu Lisu og önnur ódauðleg listaverk hans, þá er hann án efa mesti vísindamaður Endurreisnarinnar.
Fæðingarheimili hans og bærinn Vinci eru í 25 mín. fjarlægð frá hótelinu okkar og þangað héldum við næsta dag. Fræddumst um lífshlaup hans og æskuár og gengum svo frá heimilinu þriggja km. leið niður í þorpið Vinci. Þar er safn sem ber nafn hans og heldur á lofti verkfræði afrekum hans.

Þaðan fórum við svo til ólívuolíuframleiðanda, skoðuðum tækjabúnað og lærðum muninn á kaldpressaðri jómfrúarolíu og hversdags olíu og smökkuðum muninn.
Kvöldverður var á einum glæsilegasta og besta veitingastað héraðsins í litla bænum Monte Carlo.

Lokadagurinn var í sjálfri Flórensborg. Að dvelja í henni hluta úr degi er auðvitað bara eins og að finna lyktina af góðu víni. Þrír til fjórir dagar í þeirri perlu er miklu nær, en tilgangurinn með að koma þangað nú, var auðvitað til þess að hver og einn geti metið það fyrir sig, “hingað verð ég að koma aftur” eða ekki.
Um Flórens væri líka nær að skrifa sjálfstæðan pistil, en það bíður betri tíma.