Það var gaman að hitta aftur lífsglaða félaga úr Kirkjukór Siglufjarðar, sem komið höfðu með mér í Sælkergöngu til Garda fyrir fimm árum.
Nú voru enn fleiri kórfélagar með í ferð og fleiri makar, því mikið hafði verið vitnað í hina ferðina undanfarin ár.
“Hér er ekkert hrafnaþing”…
, heyrðist á flestum stöðum sem stoppað var á og þó ég muni það ekki er ég viss um að aðrir sem biðu farþega í komusal Malpensaflugvallar fengu að heyra “kvinntinn” áður en við héldum til rútunnar.
Eins og jafnan þegar haldið er í Sælkeragöngu til Toskana, þá var aðeins ekið í 10-12 mín. áður en komið var á flugvallarhótelið sem við gistum í fyrstu nóttina. Athugið: Dagskráin 2023 er öðruvísi, við fljúgum til Rómar og ökum beint a hótelið “okkar”.
“Toscana, here we come”
Kl. 08:00 næsta dag var svo lagt upp í rútuferð suður til Toskana og komið á hótel þar vel fyrir kl. 13:00. Innritun gekk fljótt og vel og svo skaust fólk út í næsta kaffihús, til að hressa sig fyrir fyrstu göngu ferðarinnar.

Montecatini Terme er ekki mikið meir en 100 ára gamall bær, en eftir rölt um hann var haldið upp í Mið-aldabæinn Montecatini Alto. Þeir sem ekki höfðu áhuga á brattri brekkunni tóku bara toglestina upp og svo hittust allir á gamla torginu, áður en við gengum léttan hring innan bæjarmarka.
Næsta dag kl. 10:00 var gönguleiðsögumaðurinn okkar mættur aftur og nú hlaðinn nesti fyrir “Pikk-nikk” í skóginum. Þó rauðvínið og hvítvínið væri sínu þyngst af matvörunni sem hann færði okkur, taldi enginn eftir sér að skella slíku í dagspokann sinn, ásamt brauði, ostum, áleggi og ávöxtum.
“Því að allan andskotann er þar hægt að gera”
Það var stemning í skóginum og fljótlega hafði hópurinn brostið í söng. Eftir að komið var til baka á hótelið voru margir til í að skella sér í laugina, þó köld væri. Því voru allir meir en tilbúnir fyrir vínkynningu á sex eðalvínum, frá bestu vínhéruðum Ítalíu.

Það var rólegur morgun daginn eftir, því klukkan 14:01 átti að taka lest til Lucca og eyða deginum þar. Bærinn er allur inna borgarmúra og við gengum á múrnum til að skoða bæinn. Margir sögðu á eftir “hér vil eyða æfikvöldinu”.
Það má leiða líkum að því að síkópatinn hann Sturla Sighvatsson hafi stoppað í sömu kirkju og við þegar hann fór í sína frægu Suðurgöngu og meyjarnar í Róm grétu hástöfum af að horfa upp á svo glæstan mann svo hart leikinn af kirkjunni.
Deginum lauk á Michelin stað í sveitinni fyrir ofan Lucca og eftir sjö rétti þótti öllum gott að vita að rútan beið eftir því að flytja þá heim á hótel.