Vísindavirkið á Sagres

Iðnaðarnjósnir eru viðurkennd staðreynd í nútímasamfélagi, allir reyna að verjast þeim, en alltaf eru einhverjir tilbúnir til að reyna að stela sér þekkingu.  Prins Hinrik sæfari vissi að verja þyrfti þær upplýsingar og staðreyndir sem menn hans komust yfir eftir áratuga langar tilraunir til að finna siglingaleiðina til Indlands. Kostnaður ríkisins við þessa leit var óheyrilegur því gera mátti ráð fyrir að, af hverjum fimm skipum sem lögðu upp í siglingu, kæmu aðeins 2-3 til baka.  Bæði verðmæti skips og reynsla áhafnar horfin í hafið.  

Endurbætur

Hann taldi því að betrumbætur á skipum, sjókortum, seglabúnaði og siglingatækjum væru forsenda fyrir áframhaldinu.  Hann sá einnig að þekkingu vantaði á straumum hafsins og vindum himinsins.

Staðvindar mældir á Sagres
Staðvindar mældir á Sagres

Suð-vestasta horn meginlands Evrópu varð fyrir valinu, klettahöfðinn Sagres í Algarve.  100 metra hár hamraveggur girti höfðann af á þrjá vegu.  Aðeins þurfti að byggja ókleyfan múr þvert yfir klettinn, landmegin og þá var kominn felustaður, fyrir allar þær rannsóknir og uppgötvanir sem framundan voru. Samhliða þessu voru skip stækkuð og þróuð og til varð skipið sem þeir nefndu Caravella.  Caravellurnar ristu grunnt, til að komast sem næst ströndum Afríku, möstrum var fjölgað og miðskipið breikkað.  

Þríhyrnda afturseglið skipti sköpum
Þríhyrnda afturseglið skipti sköpum

Þríhyrnda afturseglið varð einkenni þeirra og jók hæfileika skipsins til að sigla beitivind, skáhalt upp í vindinn.  Caravellan var hinsvegar völt og misstu menn hana á hliðina var hæpið að hún risi aftur.

Meiri endurbætur

Siglingatækin voru ófullkomin þegar leitin hófst og sjókort nánast hreinn skáldskapur.  Hvorttveggja þurfti að lagfæra og framlag þessara frumkvöðla til siglingatækja varð Astrolabinn, tæki til að mæla staðsetningu miðað við afstöðu himintunglanna.  Stjörnukort Grikkjanna voru einnig leiðrétt. Sjókortin fóru að verða nákvæmari með árunum, óvættir hurfu þaðan og í staðinn komu eyjar, nokkuð nákvæmlega staðsettar, mynni stórfljóta á meginlandi Afríku og önnur kennileiti, sem hald var í fyrir þá sem á eftir fylgdu.

Salteyja nærri Cabo Verde
Salteyja nærri Cabo Verde

Fundin Brasilía

Hafstraumar voru kortlagðir og skipstjórarnir lærðu að þekkja staðvinda úr norð-austri vestur yfir Atlandshaf, sem á endanum báru skipin inn á staðvinda frá norð-vestri til baka að Afríku miklum mun sunnar.  Ýmsir telja að Portúgalir hafi fundið Brasilíu mörgum árum fyrr en þeir gáfu út, sem var árið 1500. Portúgalir fundu á sama tíma land í vestri frá Íslandi og nefndu Terra Nova, sem breska heimsveldið seinna nefndi Newfoundland á ensku.  Þetta var einnig gefið út árið 1500, kannski til að Spánverjar slægju ekki eign sinni á það eins og Vestur Indíur.

Siglt að Íslandi

Hinrik hafði staðið í bréfaskriftum við Danakonung, því hann vissi að víkingar af Íslandi hefðu fundið land í vestri.  Í gegnum Berangeríu, dóttur Sancho I. konungs Portúgals, sem varð drottning Valdemars II. Danakonungs , rúmum tveim öldum fyrr, héldust enn tengsl milli konungdæmanna.  

Dannebrogsfáninn birtist Valdimar í svefni
Dannebrogsfáninn birtist Valdimar II. í draumi fyrir orrustu um Tallinn

Þess má geta, að í gegnum þann “ækteskap” rekjast saman ættir Jóhanns Karls Spánarkonungs og Vigdísar Finnbogadóttur. Hér læt ég lokið, að sinni, umfjöllun um siglingar Portúgala út í óvissuna.  Þær voru örugglega ekki minni afrek en geymferðir nútímans.  Það var auðvelt fyrir Vasco da Gama að ljúka verkinu árið 1498,  eftir að undanfararnir höfðu fórnað lífi og heilsu í að sanna siglingaleið suður fyrir Afríku. Þess í stað verður fyrstu hópunum í Sælkeragöngu til Garda fylgt eftir í máli og myndum, bæði á “facebook” og trúlega í bloggi.