Heimsveldi á höfunum

Ég nefndi í pistli fyrir skömmu að Filípa af Lancaster hefði verið ættmóðir þeirra kynslóða sem gerðu Portúgal að heimsveldi á höfunum.  Hvernig má það vera að svo lítil þjóð hafi náð svo háu marki? Segja má að grunnurinn að því hafi verið lagður í tíð hinnar drottningarinnar sem ég nefndi, Elisabetar af Aragon, drottningar Dinisar bóndakóngs.  

Ræktun nytjaskóga

Í hans tíð var mikill uppblástur og landrof á svæðinu suður og vestur af höfuðborg hans, Leiría.  Í þeirri viðleitni að hefta uppblásturinn hóf hann skógrækt til að binda jarðveginn og um leið varð til einn fyrsti nytjaskógur Evrópu. Þegar þeir synir Filípu af Lancaster og Jóhanns I. hófu að undirbúa fyrstu herferð sína á hendur Márakaupmönnunum í Ceuta, sunnan Gíbraltarhöfða, þá var þarna feiknamikill skógur, frílega 100 ára gamalla trjáa, í eigu konungsættarinnar, sem biðu eftir að verða flett í skipsskrokka.

Ceuta heyrir enn undir Spán
Ceuta heyrir enn undir Spán, síðan Portúgalir hernámu hana árið 1415
Undirbúningur er talinn hafa tekið allt að tveim árum og farnar voru njósnaferðir gegnum Gíbraltarsund, undir því yfirskyni að verið væri að njósna um Andalúsíumenn.  Í leiðinni voru allar aðstæður kannaðar sunnan sundsins og niðurstaðan var að Ceuta væri vel varin frá landi, en illa varin frá sjó.

Fyrsta árásin

Þann 21. Ágúst 1415, lagði mikill floti Portúgalskara skipa úr höfn í Lissabon, sem þá var orðin höfuðborg landsins og stefnt var suður fyrir Sagreshöfða.  Hann markar suð-vesturhorn Iberíuskagans og spilar mikla rullu í þeim þrekvirkjum sem á eftir fylgdu í sögu landsins. Portúgalirnir hefðu ekki þurft öll þau skip sem í flotanum voru og fyrirstaðan var nánast engin.  Konungssynirnir gátu því farið á kvennafar strax upp úr hádeginu og duflað og drabbað það sem eftir lifði dags.

Marokkóskur markaður
Marokkóskur markaður eins í dag og árið 1415
Þeir rændu alla markaði borgarinnar og auðæfin sem þeir fluttu þaðan gerðu miklu meir en að kosta herförina.  Jóhanni konungi bárust tíðindi af vel lukkaðri ferð og skellti sér suður í Algarve, til að taka á móti strákunum.  Þar sem hann beið þeirra, nærri bænum Tavíra, heitir enn í dag Pedras del Rei, eða konungsklettur.

Kristnun villutrúarmanna

Ég sagði einnig frá því að Jóhann I. konungur hafi verið æðstur manna í Avis riddarareglunni portúgölsku og þriðji sonurinn Hinrik í þann mund að taka við af föður sínum.  Þessu fylgdi sú skylda að leggja stund á trúboð meðal heiðingjanna. Það trúboð var þegar hafið í Ceuta og fljótlega varð til sú hugmynd að ráðast á fleiri borgir Berbanna í Marokkó og fjármagna trúboð og landvinninga með ránsfé.  Jafnvel gengu menn svo langt í draumum sínum að hugsa sér, að á endanum gætu þeir fundið siglingaleið til Indlands, þangað sem verðmætin voru upprunnin.

Hugsuðurinn

Hinrik sæfari var líklega ekki mjög sjóhraustur, allavega fór hann aldrei nema fyrstu ferðina, en lagðist þess í stað í mikla rannsóknavinnu á því hvernig komast mætti sjóleiðis til Indlands.  

XIR159069 Henry the Navigator (1394-1460) detail from the Polyptych of St. Vincent, c.1465 (oil on panel) by Goncalves or Gonzalvez, Nuno (fl.1450-71) oil on panel Museu Nacional de Arte Antigua, Lisbon, Portugal Portuguese, out of copyright
Hattur Hinriks vísar fremur í kirkju en konungdóm
Hjá Austurlanda kaupmönnum komst hann yfir heimskort, gert af Ptolomeusi, hinum Forn-Gríska.  Það sýndi að ekki var hægt að sigla innúr Miðjarðarhafi og til Indlands, en hinsvegar með því að komast um sjóveg suður fyrir Afríku. Og þar með var hafin leitin að siglingaleiðinni fyrir suðurenda Maurien (eins og Danir nefndu Afríku) og allt til Indlands.  Sú leit er efni í marga pistla og mun kannski birtast smátt og smátt á næstu vikum.