Portúgal núna

Síðan við hjónin hættum störfum sem fararstjórar í Portúgal, árið 1996, höfum við nokkrum sinnum átt þess kost að ferðast þangað, nú síðast þrjú ár í röð til Lissabon.

Heillandi Lissabon

Það gladdi mig mikið að hitta mann síðasta haust sem varð óðamála þegar hann heyrði við værum vel kunnug í Lissabon.  Þangað hafði hann komið nýlega og var gjörsamlega heillaður af borginni.

Hann sagðist varla þurfa að heyra af því hvernig norður hlutinn væri, svo gjörólík væri borgin Algarve héraðinu, sem hann vissi að gæti verið hvar í heimi sem væri.  Og það er einmitt mergurinn málsins.

Vasco da Gama brúin
Vasco da Gama brúin frá 1998, þá lengsta brú Evrópu

Í síðasta pistli reyndi ég að lýsa Portúgal og Lissabon, en ekki síður einmitt Algarve héraðinu eins og það kom okkur fyrir sjónir undir lok níunda áratugar síðustu aldar.  Algarve hefði þá átt að vera orðið nútímalegt og tilbúið fyrir allan þann gríðarlega fjölda ferðamanna sem þangað hélt ár hvert.

Svo var þó aldeilis ekki, meðal annars vegna þess að skipulagsmál voru í algerum ólestri.  Ef þú gast keypt þér 1.000 fermetra lóð í bænum, máttirðu byggja 1.000 fermetra hótel.  Aðgengi, gangstéttir, holræsi, rafmagn & sími og slíkir hlutir voru ekki þitt vandamál, bærinn átti bara að leysa þau mál, fyrr en seinna.

Það var ekki ólíkt því rugli sem á sér stað hér á landi einmitt í dag.  Við, með okkar háa menntunar- og menningarstig og mikla landrými fyrir ferðamanninn, troðum öllum á sömu blettina, skipulagslaust og þar er aukaatriði, hvort aðstaða er til að taka á móti tugþúsundum gesta á degi hverjum.

Skipulag & kaos.

En aftur að Portúgal í dag.  Svo skrítið sem það er, þá týndist reyndar talsvert af töfrunum, við allt skipulagið, beinar götur og tví- til fjórbreiðar, mikið pláss undir bílastæði, þaulskipulögð raðhúsa og parhúsa hverfi.  Blómaker og þráðbeinar trjáraðir, sem áður voru flest sjálfsáin og áttu fegurð sína í óreiðunni.

Þjóðvegakerfið hefur tekið algerri byltingu.  Nú, þegar aðeins tekur 30 mínútur, að geysast á hraðbraut það sem áður var engin leið að giska á hve langan tíma tæki, gerir maður sér best grein fyrir hve góðar samgöngur eru mikilvægur þáttur í nútímasamfélagi.  Það er kannski ein staðfestingin á að “tíminn er peningar”.

Svo stendur tíminn í stað á öðrum stöðum
Svo stendur tíminn í stað á öðrum stöðum

Í dag eru margar læknamiðstöðvar í Albufeira og í nánast hverjum ferðamannabæ Algarve.  Stórt sjúkrahús er risið.  Skólarnir stærri og betur búnir.  Leigubílarnir allir frá Bens og bemsínsalar á “hverju horni”.

Nú eru komnir háskólar í flest héruð landsins, en þau eru 11 talsins.  Unga fólkið fer aðeins til útlanda, vilji það sækja sér æðri menntun, hliðstætt ungum Íslendingum.  Þó er, eins og hér, munur á borgunum og dreifbýlinu.  

Gömul hverfi með nýtt hlutverk

Lissabon hefur tekið stórstígum breytingum.  Miðborgin er í dag bæði glæsileg og falleg í fjölbreytni sinni.  Gamalt og nýtt fær þar að halda sér, án þess að annað skyggi á hitt.  Viðhald húsa, sem var í miklum ólestri, er nú allt annað og þegar nýtt er byggt í gömlu hverfi er reynt að halda yfirbragði götunnar óbreyttu.

Porto er glæsileg borg þó landslagið þrengi að henni.  Þar eru risa-mannvirki, Ný brú yfir Duoro ána og leikvangur á áberandi stað.   Hvorttveggja svo tilkomumikið að þau sanna að ekki þurfa öll mannanna verk að verða lýti á borg eða landslagi.  

Evrópusambandið

Hver er svo ástæðan fyrir öllu saman?  1986 var Portúgal tekið inn í Evrópusambandið.  Þeir fengu sex ára aðlögunartíma og á meðan fengu þeir, ásamt Grikklandi, Írlandi og Suður-Ítalíu ríkulegri styrki frá EU en aðrar þjóðir sem voru nýteknar inn.  

Þessum árum var svo fjölgað, hvað Portúgal varðaði, um fjögur ár og 1996 voru þeir orðnir fullgildir aðilar.  Með Cavaco Silva sem forsætisráðherra urðu þeir leiðtogaríki sambandsins sama ár.

Eins og Írar, nýttu þeir féð vel sem frá EU kom, en við vitum hvernig fór fyrir Grikkjum og á Suður Ítalíu hefur aðeins Mafíunni vaxið fiskur um hrygg.

Það verða fleiri hugleiðingar um hið gamla Portúgal og hið nýja á næstunni.

 

8 SÆTI ERU EFTIR Í HAUSTFERÐINA.  ÞEIR SEM ÁHUGA HAFA ÞURFA  AÐ GREIÐA STAÐFESTINGU FYRIR 31. MAÍ N.K.