Siglingu lýkur í Singapore.

Hinni spennandi siglingu okkar var nú senn að ljúka.  Siglt var inn í stórglæsilegt hafnarsvæði Singapore kl. 08:00 að morgni.  Það var ótrúlegt að verða vitni að því er rúmlega 3000 farþegar gengu frá borði á 30 – 40 mínútum upp úr kl. 09:00, svo gott var skipulagið.  

Löglega inn í landið

Það bjargaði þó engu þegar þaulreyndur fararstjórinn sem hér ritar, hafði pakkað vegabréfi sínu í stóru ferðatöskuna.  Sú taska hafði verið flutt í land strax kl. átta og engin ástæða var fyrir tollverði Singapore að hleypa mér í land án vegabréfs.   Það voru þó einmitt þeir, sem gerðu allt til að hafa uppi á töskunni með mér, hleypa mér fram hjá öllum öryggishliðum og koma mér svo aftur út úr landinu, til að geta komið inn í það á löglegan hátt.

Gervitré og allr plöntur jarðarinnar, utan og innan dyra.
Gervitré og allr plöntur jarðarinnar, utan og innan dyra.
Leiðsögumaður okkar í Singapore var sá besti, eða öllu heldur sú besta sem við kynntumst.  Hún sagði mjög skipulega frá stuttri en viðburðaríkri sögu borgríkisins, samhliða því sem hún sýndi okkur sérstæða samsetningu borgarinnar. Fyrsta glæsibyggingin sem greip athygli manns var Marina Bay Sands hótelið, sem samanstendur af þrem turnum, sem tengdir eru saman að ofan, með eftirlíkingu af skipi.  Annað sem ekki gleymist er “Gardens by the Bay” garðurinn, sem virkar í fyrstu fulltrúi fáranleikans, en endar svo sem sennilega fullkomnasta aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem ég hef heimsótt.

Hún kom samt á óvart

Allir sem vissu að við hjónin værum á leið til Singapore voru búnir að segja okkur að það yrði toppurinn á ferðinni.  Ég óttaðist því að verða fyrir vonbrigðum, svo miklar væntingar sem búið var að leggja inn hjá manni. En viti menn, sennilega kom Singapore mér mest á óvart.  Samfélag sem ekki á nokkrar minnstu auðlindir, því fiskimiðin höfðu verið þurrkuð upp fyrir öldum síðan.  Orku eiga þeir enga, þá vantar þúsundir ferkílómetra akurklendis til að geta brauðfætt þjóðina og þeir þurfa að sækja vatn upp á fastaland. Samt er þetta einhver ríkasta þjóð heimsins, hvað kemur til?  

2015-10-23 11.46.23
Litla Indland heitir eitt hverfið í Singapore
Kínverjinn Lee Kuan Yew, sem andaðist upp á dag fyrir ári síðan, þann 23. mars 2015, hefur oft verið nefndur faðir Singapore.  Hann varð forsætisráðherra borgríkisins árið 1959, eða áður en þeir höfðu fengið sjálfstæði frá Malaysíu, árið 1965 og hann gegndi embættinu til ársins 1990.   Allt til ársins 2011 gegndi hann svo pólitísku ráðgjafahlutverki seinni ríkisstjórna og hafði þá verið einhverskonar andlegur og pólitískur leiðtogi þjóðarinnar í 56 ár.  

Skattaparadís

Ríkið var í rústum eftir seinna stríð, nýlendukúgun Breta, hersetu Japana og svo valdatíma Malaysíumanna.  Hvort LKY, eins og hann er oftast kallaður, var maðurinn sem fann upp hugmyndina um “fríríki” veit ég ekki, en með hugmyndina um stofnun fríríkis lagði hann af stað til allra mögulegra og ómögulegra grannríkja í þessum heimshluta. Erlent fjármagn var það sem skyldi reisa við fjárhag eyríkisins.  Engir skattar, bara ávöxtun.  Að kaupa og selja peninga skapaði peninga.  

Hafmeyja með ljónshöfuð, tákn borgarinnar.
Hafmeyja með ljónshöfuð, tákn borgarinnar.
Sjálfsagt hafa margir skrifað lærðar greinar um viðskiptaundrið Singapore, ég er ekki maður til þess.  Umfjöllunin verður því ekki lengri og pistlarnir verða heldur ekki fleiri um þessa ferð.  Eftir tvær gistinætur á Hilton hótelinu flugum við til Helsinki og þaðan áfram til Keflavíkur. Ótrúlegu æfintýri var lokið og við tók hversdagslíf oktobermánaðar hér í Reykjavík.  Ég þakka þeim sem haldið hafa út við lestur pistlanna og vona að þeir hafi haft gaman af og jafnvel myndað sér skoðun á því hvort þeir ættu að leggja í hliðstætt æfintýri.   Mitt svar.  Það skyldu allir gera.