Piri Piri og Portúgal

1998 risu mikil mannvirki upp með Tejo ánni í Lissabon, þar sem gömul og lúin vöruhús höfðu áður staðið.  Þetta voru mannvirkin sem hýstu síðustu Expo sýningu 20. aldarinnar.  Þangað var “Oriental” neðanjarðarlínan lögð og þar kom nýja Vasco da Gama brúin upp á land norðan árinnar, en hún tengir Suður-Portúgal og í raun Andalúsíu við Lissabon.  Stórt listaverk eftir Erro prýðir uppgöngusalinn.

Birmingham Education Show

Við vorum í velheppnaðri ferð á kennarasýninguna í Birmingham, í síðustu viku.  115 manns heimsóttu sýninguna á okkar vegum að þessu sinni og margir enduðu ferðina með því að færa sig Lundúna síðustu nóttina.

Á rölti nærri hótelinu okkar gekk ég fram á portúgalskan veitingastað, sem auglýsti Piri Piri.  Það kallaði fram minningar um fararstjóraárin í Algarve, sem lauk fyrir 20 árum nákvæmlega.

Það var beinlínis eins og sumir væru komnir til Portúgals í þeim eina tilgangi að snæða Piri Piri kjúkling á þessum árum, svo vinsæll var hann.

Hann er ævinlega grillaður yfir eldi, baðaður í olíu sem bragðbætt er með miklu Piri Piri kryddi.  Á flestum stöðum er hann skorinn í sundur um bringuna og flattur út.  Kjúklingurinn er smár og því grillast bringan alveg jafn vel og leggirnir.

Piri Piri kjúklingur

piripirichicken_72310_16x9.jpg
Piri Piri er raunar sama krydd og við þekkjum sem Cayenna pipar.

André var vinsælasti staðurinn og stundum var salurinn hans þéttsetinn Íslendingum og varla annarra þjóða gestir á staðnum.  Það var mikil stemning í matsalnum, því í einu horni salarins var grillið hans André og stóð jafnan í ljósum logum á meðan maður dvaldi við kvöldverðinn.

Máltíðin var einföld, alltaf niðurskornar gulrætur, legnar í olíu með miklum hvítlauk á meðan maður beið matarins.  Svo kom kjúklingurinn, franskar og ferskt blaðsalat.  Íspinni var hefðbundinn eftirréttur og féll vel að smekk barnanna.

André var alltaf með góð vín á boðstólnum, ekkert sérstakt húsvín, enda öll vínin á góðu verði.  Portúgalirnir segja líka “ríkuleg máltíð með slöku víni er slök máltíð – einföld máltíð með góðu víni er góð máltíð”.

Lobster Piripiri
Humar með Piri Piri

Piri Piri er þó ekki síður spennandi kostur sem krydd á ýmsan skelfisk. Risarækjur eða humar, grillað yfir eldi og baðað í piri piri olíu er himneskur réttur.

Svínakótilettur piri piri, cataplana piri piri og saltfiskur með dass af piri piri er líka eitthvað sem maður gleymir ekki.  Bretarnir drekka bjór með þessum réttum, en kannski drekka þeir bara bjór með hverju sem er.  Portúgölsku vínin þola samt öll svona kröftuga rétti, hvort sem rauð eða hvít.

Ríkulegt þjórfé

Eftirminnilegasta piri piri máltíðin mín var kannski ein sú fyrsta af þeim toga.  Ég var að ljúka bátsferð með 30 – 40 landa, sól í hádegisstað og ég óþægilega heitur í húð og skrokk.  Ég lenti svo á borðinu við hliðina á grillstæðinu, svo engin leið var að sjá hvað flóði á kjúklingnum, olían eða svitinn af mér.

Mér lá á að komast út og heim og sparaði ekki þjórfé.  Mér fannst samt óþarflega mikill undrunasvipur á þjóninum þegar hann tók við fénu.  Er heim kom sá ég að ég hafði “tipsað” hann í Sterlingspundum, ekki Escudos – nánast fimmtánföld upphæð.