Menning Portúgals

Portúgal er ekki fyrirferðamikið þegar kemur að upptalningu afreka Evrópu á sviði lista, bókmennta, tónlistar eða myndlistar.  Sagan geymir ekkert tónskáld sem alþekkt er útfyrir heimalandið.  Myndlist þeirra hefur ekki komist á stærstu söfn heimsins.  Bókmenntalegt afrek er hinsvegar ljóðabálkurinn Os Lusiadas (við Lúsitaníumenn), eftir Luis de Camoes.

Goðsögnin

Líkt og skrif Dantes á Ítalíu urðu til þess að leysa Latínuna af hólmi sem hið opinbera ritmál, þá er Camoes almennt talinn faðir portúgalska ritmálsins.  Það er ekki síst að þakka þessum mikla ljóðabálki upp á 1008 erindi, átta línur hvert.  Allur bálkurinn er með sama bragarhætti, AB, AB, AB, CC.

Camoes er alltaf sýndur með lárviðarkrans á höfði og skemmda augað hálf falið
Camoes er alltaf sýndur með lárviðarkrans á höfði og skemmda augað hálf falið

Talið er að Camoes hafi verið með í siglingu Vasco da Gama, er hann sigldi fyrstur Evrópumanna til Indlands 1498.  Ekki eru þó allir sammála því, en vitað er að hann var í siglingum fyrri hluta æfi sinnar, drakk og svallaði mikið, missti annað augað í hnífabardaga, svo fátt eitt sé nefnt. Hann var þó sannanlega víðlesinn og eða með æðri menntun.  Hann vitnar aftur og aftur gríska goðafræði í ljóði sínu.  Jesúítar höfðu smátt og smátt tekið yfir alla uppfræðslu í landinu, en hún var afskaplega biblíuskotin og ekki víða byggð á grísku goðafræðinni.  Þeirrar þekkingar hefur hann því mögulega aflað sér sjálfur. Ekki er algengt í dag að Portúgalir vitni í Os Lusiadas, þó þeir þekki nafnið á bálkinum.  Trúlega vitna Íslendingar oftar í Hávamál og Finnar í Kalevala.

Konungar hafsins

Eftir situr þó, að enn er Portúgalska rituð með lítið breyttri stafsetningu frá þeirri sem Camoes valdi sér, er hann setti ljóðabálkinn saman á rúmum áratug.  Þar segir hann m.a. frá sigrum Portúgala í baráttunni við Veðurguði og Sjávarguði er þeir leituðu nýrra landa og siglingaleiða um höfin breið.

Portúgalska krossinum er oft ruglað saman við kross Frímúrara.
Portúgalska krossinum er oft ruglað saman við kross Frímúrara.

Það leiðir hugann að vísindaafrekum þeirra á fyrri öldum.  Upphafsmaður þessara afreka er oft talinn Hinrik sæfari, eða Hinrik sæfróði, eins og Helgi Briem nefndi hann í bók sinni Lönd og lýðir – Suðurlönd. Hinrik var þriðji sonur Jóhanns I, konungs og tók við titli föður síns, sem yfirmaður Avis-riddarareglunnar.  Þeim titli fylgdi sá heiður að leiða trúboð kristinna í hinum heiðna heimi sunnan Miðjaraðarhafsins.  Frá þessum heiðingjum kom allur varningurinn frá Austurlöndum-fjær yfir á Iberíuskagann.

Kryddleiðin

Margir þjóðhöfðingjar Evrópu höfðu lengi horft löngunaraugum til þeirra auðæfa sem þeir græddu svo mjög á og kom inn í Evrópu, annars vegar yfir Gíbraltarsundið, eða með Feneyjakaupmönnum, sem voru orðnir svo auðugir að þeir keyptu upp eyjar á Eyjahafi og staðgreiddu þær. Þetta tvennt leiddi til fyrstu árásar Portúgala á borgina Seuda við Gíbraltarsund Marokkó megin.  Það var þann 21. Ágúst, árið 1415.   Undirbúningur árásarinnar hafði staðið í tæp tvö ár, skip verið byggð og herir þjálfaðir.  Árásin var svo vel heppnuð að ákveðið var að fikra sig suður með Afríkuströnd, vinna borgir og kristna lýðinn.

Portugalír þróuðu Astrolabinn sem helsta siglingatæki sitt.
Portúgalir þróuðu Astrolabinn sem helsta siglingatæki sitt.

Þetta leiddi svo til einhverrar merkilegustu vísindastöðvar í Evrópu á Mið-öldum, þar sem skip voru stækkuð og þróuð til úthafssiglinga, segl bætt og aukin, sjókort hugsuð upp á nýtt og ný siglingatæki fundin upp. Það væri efni í marga pistla að færa það allt í letur og því mun það bíða ferðarinnar okkar í haust, er við ökum um hugsanlega fyrsta nytjaskóg í Evrópu, sem settur var niður til að hefta jarðvegseyðingu og varð seinna efniviðurinn í stærsta skipaflota álfunnar. Trúlega verður næsti pistill helgaður síðasta hluta siglingarinnar um Kínahaf og víðar, sem ég var að segja frá í mörgum pistlum hér á undan.