Víetnamstríðið – „The American War“

Hafskipahöfn Ho Chi Minh borgar er í 80 km. fjarlægð frá borginni sjálfri, svo langt stendur hún inni í landi.  Flestir fóru því bara eina ferð til borgarinnar, en skipið bauð upp á sveitaferð með viðkomu í smáþorpum nærri höfninni og svo ferð í nýuppbyggðan sólarstrandabæ í 45 mínútna fjarlægð frá skipahöfninni. Víetnamski leiðsögumaðurinn okkar var ungur og skemmtilegur maður.  Hann heilsaði hópnum með ávarpi Robin Williams, úr samnefndri kvikmynd, GOOD MORNING VIET NAAAAAAM.  Þetta gerði hann með sömu tilþrifum og Robin og var um leið búinn að fá allan hópinn á sitt band.

Ringulreið á gatnamótum

Vespan er aðalfarartæki borgarbúa.  Öll fjölskyldan, foreldrar og börn sjást saman á hjóli og sendlarnir flytja svo stóra kassa eða poka á vespunni sinni að vart er pláss fyrir þá sjálfa. Það minnir á maurahjörð að sjá allar þessar vespur fylla götuna framundan.  Hægfara vespurnar sjá til þess að umferðin er ekki hröð og engin slys sá maður, hvorki árekstur þeirra í milli eða við aðvífandi bíla.

„The American War“

Aftur var talsverður óhugur í mér að koma á vettvang sjálfs Vietnamstríðsins.  Ég hafði byrjað að lesa, mér til undirbúnings, bókina “Og þá fór ég að skjóta”.  Þetta er viðtalsbók, við fyrrum liðþjálfa, liðsforingja og hermenn, sem sendir höfðu verið til Vietnam, til að “bjarga bandarísku þjóðinni”.   Lýsingarnar voru hver annarri ógeðslegri t.d. á því hvernig byrjað var að byggja upp hatur og drápsfýsn hjá þessum ungu mönnum, frá fyrsta degi þeirra í herþjálfuninni.  Aldrei var talað um andstæðingana sem Víetnama, heldur alltaf “gulu djöflana” eða “gulu kvikindin”. Það fór svo að ég lagði bókina frá mér og hyggst ekki lesa meir í henni nokkurn tíma.  Í raun var hún endanleg staðfesting á því hvílíkur glæpur þetta stríð var gagnvart vestrænni sögu.

Pósthúsið í Saigon, þeir nota ð eins og við.
Pósthúsið í Saigon, þeir nota ð eins og við.

Frönsk nýlenda

Kannski til að fela fátækt sína, kjósa Víetnamarnir að sýna Vesturlandabúum helstu stórhýsi og mannvirki frá tímu franska nýlendutímans.  Notre Dame kirkjuna, sem svo heitir, pósthúsið og ráðhúsið, sem sjálfsmorðsflugmaður nær eyðilagði í einni byltingunni á nýlendutímanum, en var svo byggt upp aftur í stækkaðri gerð. Fyrst var þó komið á stríðsminjasafnið, safn sem segir frá “Ameríku srtríðinu”.  Að sjálfsögðu heitir það ekki Víetnam stríðið í þeirra eigin landi.  Þetta safn bætti enn á þann óhugnað sem ég hafði lesið í fyrrnefndri bók.   Þarna gat að líta ýmis þau pyntingatæki sem Bandaríkjamenn notuðu til að fá menn, konur og börn til að segja til náungans.  Safnið sýndi áhrif napalmsprengjanna á jarðveg og grunnvatn, sem enn í dag er stórlega eitrað.   Listi þess sem sjá má er ennþá lengri og ógeðfelldari, en ég spurði leiðsögumanninn okkar hvernig bandarískum ferðamönnum liði, að koma í þetta safn. Svar hans var að sumir færu aldrei lengra en í forgarðinn, þar sem pyntingatækin eru, þar brotnuðu stóreflis karlmenn saman og grétu eins og ungabörn.  Þetta átti við um bæði þá sem sendir höfðu verið í stríðið og hina sem sluppu þó við viðbjóðinn.

Allir réttirnir voru fagurlega skreyttir
Allir réttirnir voru fagurlega skreyttir

Óvæntur glæsileiki

Í og undir lok stríðsins voru engin hótel í borginni, sem ekki voru hálf rústuð eftir undangengnar byltingar og stríðsreksturinn.  Ný stjórnvöld þurftu samt að geta tekið á móti erlendum þjóðhöfðingjum og fyrirmennum og því voru byggðar nokkurskonar villur í þeim tilgangi. Við snæddum hádegisverð í einni slíkri og líklega er það eftirminnilegsta máltíð mín í allri ferðinni.  Maturinn var stórkostlegur, framsetning máltíðarinnar og þjónusta, í hæsta gæðaflokki, réttirnir sjö talsins og umhverfið glæsilegt. Áður en snúið var aftur til skips var komið í gamla heimamarkaðshúsið, en þar var þá bara kínverskan varning að fá.  Það er kannski ekkert langt síðan við héldum að við ættum fyrst og fremst að bjóða erlendum gestum okkar hér á landi, eitthvað sem væri innflutt utan úr heimi.

Gerð listmuna í landinu er stórkostleg
Gerð listmuna í landinu er stórkostleg

Víetnam þykir gott til kaffiframleiðslu og sú ræktun er mikil þar í landi.  Ég ákvað því að bregða mér yfir götuna frá markaðnum, á fallegt kaffihús sem þar var.   Mér til undrunar og gremju hét það reyndar ensku nafni og ekkert kaffi var þar að fá nema frá Suður-Ameríku.  Það rímar þá kannski við þá hugsun að bjóða fyrst og fremst kínverka framleiðslu á fjölsóttasta markaði borgarinnar. Frá Ho Chi Minh borg til Singapore var siglt á einum degi og tveim nóttum.