Lúxus um borð í Mariner Of The Seas

Það tók tvo heila daga í hafi að sigla frá Hong Kong til Ho Chi Minh borgar í Vietnam.  Eftir svo mikla umfjöllun um þá staði sem við heimsóttum á leið okkar um austurhöf, er ekki úr vegi að segja örlítið frá lífinu um borð.

„Svaladrykkur“ á hafi úti

Allir Íslendingarnir höfðu bókað klefa með svölum, bakborðsmegin í skipinu.  Við höfðum því morgunsólina alla þá daga sem siglt var lengur en bara nóttina.  Það var ósköp notalegt að geta pantað morgunverðinn, sér að kostnaðarlausu, upp í klefa og snæða hann á svölunum.  

2015-10-13 08.23.20
Morgunverður á svölunum

Það var hinsvegar ekki mikið að sjá annað en sjóndeildarhring Kyrrahafsins og þegar við eitt sinn mættum til morgunverðar í matsalnum og báðum um gluggaborð, brást þjónninn vel við.  Hann setti okkur þannig til borðs, en tók jafnframt fram, að ef við sæjum eitthvað utan við gluggann mættum við alveg láta hann vita. Morgunverður var framreiddur í okkar matsal til kl. 10:00.  Á 11. hæð skipsins var hinsvegar matsalur, sem opinn var allan sólarhringinn.   Þangað gátu þeir mætt sem seinna vöknuðu og eins þeir sem langaði í snarl fyrir svefninn.  Gallin var að sjaldnast varð það bara rétt svona snarl, svo mikið var framboðið.

Leikhúslíf í blóma

Kvöldverðarsalirnir voru tvísetnir, snætt kl. 18:00 og aftur kl. 20:00.  Kvölddagskrá í leikhúsi og víðar fór einnig fram á þessum sömu tímum, þannig að allir gátu notið, hvort sem þeir voru í fyrri mat eða seinni.

2015-10-14 07.48.54
Fjölbreytt skautasýning með frábærum listamönnum

Leikhús, sem tók 1.500 manns í sæti var á þriðju hæð afturhluta skipsins, en í framendanum var skautasvell, þar sem glæsilegar sýningar fóru fram á kvöldin. Göngugata, með verslunum og kaffihúsum var á fimmtu hæð og hluti fjórðu hæðar var lagður undir spilavíti.  Útsölur og málverka- og skartgripauppboð voru haldin flesta daga í einhverjum stærri salanna, oftast í leikhúsinu.

Allir áttu að klæðast hvítu þetta kvöld.
Allir áttu að klæðast hvítu þetta kvöld.

Óskað var eftir ákveðnum klæðnaði við kvöldverð sum kvöldin og eitt kvöldið var svokallað skipstjórakvöld, þar sem hinn danski Kaptin Pedersen ávarpaði gesti og bauð til fordrykkjar. Tveir “betri” veitingastaðir voru einnig á 11. hæðinni, þar sem meira var lagt í umhverfi og matseðil.  Fyrir þetta greiddu gestir verðmuninn á fullu fæði og matseðlisverði.

Að byrja daginn í ræktinni

Líkamsræktarsalur og ýmis spa og nuddþjónusta var á 12. hæð, leiktækjasalur fyrir börn og unglinga einnig og aftast, ofanþilja var “mini-golf” og fimm metra hár klifurveggur, tennisvöllur og “go-cart” braut.

Iceland Open í mini-golfi.
Iceland Open í mini-golfi.

Á bæði 11. og 12. hæð var svo sólbaðsaðstaða, sundlaugar og nuddpottar, barir og risaskjár sem sýndi kvikmyndir mestan part dagsins.  Í sundlaugargarðinum var tvívegis útigrill eða kvöldpartý, með skemmtiatriðum og leikjum. Það þarf því meir en lítið þungt lundarfar til að geta ekki skemmt sér um borð, þó hvergi sjái til lands.