Skipið lá tvær nætur í höfn í Hong Kong og seinni daginn héldum við niður Perluána og að suðurbakkanum, til Macao, síðustu nýlendu Portúgala. Macao er ættarnafn portúgalska leiðangursstjórans er þar hóf búsetu.
Þjóðarvilji, hvað er það?
Líkt og Hong Kong, yfirtóku Kínverjar þessa elstu verslunarmiðstöð Portúgals í Asíu, tveim árum seinna en Hong Kong, árið 1999. Þetta var að undangengnum tveim þjóðaratkvæðagreiðslum, sem farið höfðu fram með stuttu millibili og báðar leiddu í ljós að fólkið vildi óbreytt stjórnarfar. Á það var ekki hlustað í Beijing.

Það var eitthvað notalegt við að ganga um elsta hluta þessarar borgar, sem Portúgalar reistu á litlu nesi sem skagar út í Perluá. Það var eins og ganga um úthverfi Lissabon að hafa steinlögnina með svart-hvíta munstrinu, sem myndar öldur hafsins undir fótum sér.

Arfur frá Evrópu
Nútíminn hefur hinsvegar sett undarlegt mark á borgina, ekki síst á þeim stutta tíma síðan Kínverjar gerðu hana að einu sjálfstjórnarhéraða sinna. Eins og ég sagði frá í fyrsta pistli af þessari ferð, þá hefur kínverska ríkið reist þar stærsta spilavíti sem til er undir þeirra hatti, The Venetian Macao.
Fyrirbærið var formlega opnað 28. ágúst, 2007 og kostaði 2,4 miljarða bandaríkjadala. Hótelið samanstendur af 3.000 svítum, á 110.000 fermetrum. Ráðstefnusalirnir telja 150.000 fermetra og verslanir 51.000 ferm. Spilavítið státar af 3.400 spilakössum, 800 spilaborðum og 15.000 manna hljómleikasal.

Verslanirnar á þriðju hæð hlykkjast um ganga sem eru eftirlíking af Feneyjaborg, með gondólum á síki og feneyskum gluggum og súlnagöngum. Stjörnum skrýdd himinhvelfing er yfir öllu, sem myrkvast eftir því sem líður á daginn og stjörnuhiminn kemur í ljós.
Glæpur eða gullkálfur
Manni verður orðavant og fáránleikinn er svo yfirþyrmandi að maður nær varla að hafa skoðun á hlutunum. Eitt veit maður þó, hugsanlega hefði mátt nota þessa 2,4 miljarða dollara (312.000.000.000 ísl. kr.) til að bæta hag kínversku bændastéttarinnar, sem sumstaðar lifir við fátækramörk.
Eins og gefur að skilja urðu nokkur viðbrigði að koma til Ho Shi Minh borgar, eða gömlu Saigon í Vietnam, eftir heimsóknina til Macao.