Að koma til Nagasaki

Titilmyndin er af minnismerkinu um Atomsprengjuna.  Hægri hendi bendir til himins, þaðan sem sprengjan kom, sú vinstri biður um frið. Ég hafði beinlínis kviðið því að koma á þann stað, þar sem seinni Atomsprengjan féll, 9. ágúst 1945, kl. 11:02.  Það tók á móti okkur skemmtilegur heimamaður, sem þó fannst við greinilega enn skemmtilegri.  Hann hló mikið, stundum af engu tilefni, öðru en eigin orðum eða okkar spurningum.

Lífsglaður Japani

Hann sýndi okkur borgina sína af miklum eldmóði, fékk rútubílstjórann til að keyra öngstræti sem hann hafði aldrei áður farið á rútu og var sannfærður um að væri lögbrot, en vinur okkar hló.   Hann leiddi okkur um Seinna-stríðsgarðinn, sem þjóðir heimsins hafa mótað á fallegri hæð í syðri hluta borgarinnar.  Það varð mörgum borgarbúum til lífs að 600 – 700 metra hátt fjall skiptir borginni í tvo hluta.  Fjallið varði norðurbæinn fyrir höggi sprengjunnar, sem sprakk þó í 500 metra hæð yfir jörðu.

Fjöll skilja norður og suðurhluta Nagasaki
Fjöll skilja að norður og suðurhluta Nagasaki

Fjallið náði samt ekki að bjarga eftirlifendum frá geisluninni, sem örkumlaði og drap flesta sem ekki létust af högginu, hitanum eða sundruðum mannvirkjum.  Og ekki þeim sem héldu að þeir væru öruggir í nógu mikilli fjarlægð frá Nagasaki.   Það er fjallent í kringum Nagasaki, en það breytti því ekki, að geislunin var banvæn í 300 – 400 km. radíus umhverfis borgina.

Engin biturð

Ég dáðist að því hvernig hann gat sagt okkur frá afleiðingum sprengjunnar úr þeirri fjarlægð að maður fann ekki hjá honum nokkra reiði eða hatur í garð þeirra sem vörpuðu henni.   Hann lagði áherslu á hvernig alþjóðasamfélagið hefði lagst á eitt við að hjálpa til við uppbyggingu er frá leið stríðslokum.  Sendu gjafir og reistu minnisvarða í minningu fórnarlamba voðans.

500 metrum yfir þessum bletti sprakk sprengjan
500 metrum yfir þessum bletti sprakk sprengjan

Hann sýndi okkur stóran hringlaga, hellulagðan flöt, “Ground Zero”, (ömurlega amerískt heiti) þar sem á miðju stóðu tvær risavaxnar líkkistur, úr svörtum marmara – önnur stór, hin lítil og táknaði börnin, sem létust og fæddust stórkostlega vansköpuð í mörg ár á eftir.

Óhugnaðurinn heldur áfram

Við enduðum í stríðsminninga safninu og þegar ruglingur varð á inngöngu okkar gegnum gestateljarann, þá hló hann innilega.  Þetta safn ber hvaða stríðsrekstri sem er ömurlegt vitni.  Tölulegar staðreyndir sýndu allar tilraunirnar sem héldu áfram í mörg ár eftir sprengjurnar tvær.  Ekki orð um þetta meir. Hann hló þó allra mest þegar við vildum fylgja ferðalýsingu og sjá “Hollander Slope”, sem reyndist vera miðlungs brött gata, heldur styttri en Bankastrætið, en hefur haldið nafni sínu allt frá því Hollendingar voru eina þjóð heimsins, sem mátti stunda viðskipti í Japan.

Hér sagði Nonni japönskum börnum sögur af Íslandi
Hér sagði Nonni japönskum börnum sögur af Íslandi

Hryggurinn sem Japönsku eyjarnar standa á er svo langur að þó Nagasaki, sé á einni af Suður-eyjunum stóru, þá vorum við heilan sólarhring í hafi áður en við sigldum inn í höfnina í Okinawa, í Japan.

Haustferð til Portúgals 24. sept. – 01. okt.

Lissabon var í minni landafræði kölluð “Hvíta perlan í suðri”.  Það er enn réttnefni.  Í viðbót við hið gamla yfirbragð hennar er nú búið að endurbyggja og lagfæra megnið af þeim húsum og mannvirkjum, sem settu fátækramark á miðborgina þegar ég kom þangað fyrst, 1987.  Íslendingar, sem ég hef átt þess kost að sýna þessa borg eru á einu máli um fegurð og mýkt Lissabon, góðan mat og vín, ásamt vinalegu andrúmslofti. Ef þú vilt vita meira um þessa ferð smelltu þá á þennan hlekk.