Það gaf ekki´á bátinn, á Gulahafinu

Pistlarnir mínir fengu óvæntan hiksta seinnipart nóvember og er um að kenna rjúpnaveiðum, jarðsetningu norður í landi og bronkítis, í þessari röð.

Eru skemmtisiglingar skemmtilegar siglingar?

Eftir ljómandi gott ferðaveður í Beijing og nágrenni fengum við sólarlausan dag á Gulahafinu.  Maður fór því að furða sig á vinsældum þessa ferðamáta, þar sem ekkert sundlaugarveður var að finna við sundlaugina.  Það átti eftir að breytast, því leiðin lá alltaf sunnar og sunnar. Að morgni 9. október tókum við land á Jeju eyju, undan strönd Suður Kóreu.  Hún er ein helsta ferðamannaparadís landsins, fremur lítil en státar af fallegum ströndum og merkum fornminjum. Aðeins var 15 – 20 mínútna gangur í bæinn og þar sem engin skoðunarferð var fyrirhuguð fengu flestir sér göngutúr eftir hafnarsvæðinu í átt að fiskihöfninni.  Í hópnum voru íslenskir útvegsmenn og skipstjórar, sem sáu þarna margt athyglivert.

Er þetta Austur og Vestur
Er þetta Austur …
2015-10-09 11.42.39
… og Vestur

Við Gústa skoðuðum göngugöturnar, sem báru örlítið vestrænan svip, þar til maður kom á markaðstorgið.  Þar leyndi sér ekki hið austræna andrúmsloft, framandi grænmeti og ávextir, þurrkaður koli og sæhestar á teini, tilbúnir á grillið eða pönnuna.     Ég er nokkuð viss um að komi maður aftur þangað á næsta ári verður þessi miðbær orðinn mjög skemmtilegur og aðlaðandi.

Var ekki gott í matinn?

Við áttum að leysa landfestar kl. 17:00 svo upplagt var að fá sér hádegisverð á heimamanna vísu og fyrir valinu varð “hráfiskveitingahús”.  Þarna réðu karl og kona húsum og tjáskipti okkar við þau og þeirra við okkur, fólust eingöngu í hneigingum, brosi og bendingum. Eftir að okkur hafði verið bent á að fara úr skóm, var okkur boðið til sætis/púða á gólfi og máttum smokra fótum undir borð, sem ekki var meira en 25 – 30 cm. hátt frá gólfi.   Komið var með mat- og vínseðil, að við héldum og við látin velja eftir myndum.  Hvítvínið reyndist einhverskonar saft, með snert af alkohóli, drukkið úr óbrjótandi. Húsfreyjan virtist sjá að ekki fór sérlega vel um okkur á pullunni og kom með svona plastsæti, eins og algeng eru í íþróttahúsum og leikvöngum, sem studdu þá við bakið, að því gefnu að það tækist að mjaka því undir sitjandann.

Elsku fáið ykkur …..

Gústa valdi hráan makríl á miklu salatbeði og ég taldi mig sjá þarna kolkrabba á mynd og bað um hann.  Hafi ég verið í vafa um hversu hrár, eða ferskur krabbinn minn var, þá fór af mér allur efi þegar hluti úr armi dýrsins hafði sogað sig fastan við diskinn minn. Með þessu voru bornar fram eldsterkar sósur og kryddjurtir.   Skammtarnir voru stórir og hvorugt okkar kláraði, en það var ekki af því maturinn væri vondur, eða óaðlaðandi.  Báðir réttir voru nefnilega mjög fallega fram bornir og gluggaborðið, með útsýni á höfnina, lét mann finnast maður vera voða mikill heimamaður. Um kvöldið var glæsileg skautasýning á svellinu um borð og kolkrabbin var sem óðast að gefast upp fyrir meltingafærunum. Næsta morgun vöknuðum við í Busan, stærstu hafnarborg Suður Kóreu.