Torg hins himneska friðar – er það réttnefni?

Mér virðist það plagsiður hjá mörgum fornum þjóðum að draga alla ferðamenn inn í ákveðnar verksmiðjur, með gömlu handverki þeirra.  Þarna skal svo selja þeim vörurnar á verði sem ferðamaðurinn eðlilega telur að sé “verksmiðjuverð”. Oftast má finna sömu vöru í næsta búðarglugga á mun lægra verði, en þá er svarið ætíð að þar sé um fölsun að ræða.

Allar myndirnar gerðar með handarjaðrinum.
Allar myndirnar gerðar með handarjaðrinum.

Ég hef á tilfinningunni að á Íslandi sé þetta ekki gert, enda kannski “íslenskt handverk” mestmegnis framleitt í Kína.

Mengunin í Bejing

Beijing kemur alltaf á óvart, bæði þeim er aldrei hafa áður sótt hana heim og þeim er þangað eru að koma aftur eftir mörg ár.  Vesturlandabúar tönnlast nefnilega enn á því að hún sé sóðaleg og þjakandi mengun liggi yfir götum og torgum.  Þetta er hvort tveggja rangt. Eins og flest sem Kínverjar gera, fara þeir alla leið í því sem þeir ætla sér.  Fyrir Ólympíuleikana 2008 hafði undirbúningur staðið í mörg ár.  Íbúðahverfi voru reist fyrir þátttakendur, nútímaleg íþróttamannvirkin fengu mikið rými, stofnbrautir voru lagðar og allsstaðar gert ráð fyrir miklum og fallegum gróðri.

Falleg tré eða blóm á hverju götuhorni
Falleg tré eða blóm á hverju götuhorni

Fyrstu áhrif í dag eru því græn og glæsileg borg, auðveld yfirferðar og skartar frumlegum arkitektúr, fremur en skrímslalegum.

Þeir kunna sko að halda hátíðir

Þegar við vorum í Beijing stóð yfir vikulöng hátíð, trúarlegs eðlis og því var lokað hjá mörgum opinberum stofnunum og vinsælustu ferðamannastaðirnir pakkaðir af innlendum ferðamönnum og skólafólki.  

Litagleði á torgi hins himneska friðar.
Litagleði á torgi hins himneska friðar.

“Torg hins himneska friðar”, sem alla jafnan er heldur kuldalegt, var fagurlega skreytt.  Blóm er mikið notuð til skreytinga.  Þeir geta gert hvaða “fígúru” sem þeim dettur í hug, í þeirri stærð sem þá langar til.  Þannig var torgið þennan dag, aðlaðandi í sinni miklu litadýrð. Sumarhöllin og Forboðna borgin voru hinsvegar yfirfull af fólki svo að erfitt var að njóta heimsóknanna þangað.  Þar bjargaði mestu skemmtileg frásögn heimamannsins.

Múrinn – það duga engin orð

Á Múrinn og í Himnahofið var gaman að koma, því þar er rúmt um og mannlífið annars eðlis.  Sömuleiðis hittum við á góðan morgun í Tao-hofinu, enda er þar lagt upp úr kyrrð og afslappandi andrúmslofti.

Líkneski höggvið í eitt tré, sem tók 4 ár að flytja frá Nepal til Bejing.
Líkneski höggvið í eitt tré, sem tók 4 ár að flytja frá Nepal til Bejing.

Að þeirri heimsókn lokinni var haldið til hafs, sem er nærri þriggja tíma akstur, til hafnarborgar Beijing, Tiantjin.  Þar var stigið um borð í Mariner of the Seas, 138 þús tonna skip, á 14 hæðum, 3.800 farþegar og 1.500 manns í áhöfn.  Framundan var 15 daga sigling, með viðkomu í átta borgum frá Suður-Kóreu til Singapore. Við létum úr höfn undir kvöldmat og sigldum allan næsta dag, svo stórt er Gulahafið.

Eftirmáli

Þeir sem hafa haft gaman af “bloggpistlunum” mínum geta nú brátt flett til baka til síðasta hausts.  Þá hóf ég þetta dundur mitt, með því að rifja upp ferð mína til Ameríku, þegar ég var 17 ára og hafði aldrei farið að heiman. Einnig kann ég að geta boðið upp á Sælkeragönguferð til Mið-Portúgals, seinni hluta september 2016.  Það verður staðfest fljótlega.