Hvernig var í Kína um daginn?

Eins og fram kom í pistli 07. oktober s.l. fórum við hjónin sem fararstjórar í 15 daga siglingu á skemmtiferðaskipi, með 23ja manna hópi Íslendinga.   Ferðin stóð þó frá 03. – 25. oktober, þar sem gist var í Beijing í þrjár nætur fram að siglingu og síðan í tvær nætur í Singapore að siglingu lokinni.  Tíu og tólf kl.st. flug í hvora átt gerði það svo að verkum að alls stóð ferðin í 22 daga. Það er augljóslega frá mörgu að segja eftir svo langa ferð um framandi lönd.  Margt kom á óvart og annað var eins og maður hafði vænst. Þar sem við íslendingar erum svo uppteknir af ferðamennsku til Íslands og ég starfa mikið sem fararstjóri þótti mér forvitnilegt að heyra hvernig innlendu leiðsögumennirnir kynntu land sitt og þjóð og þá staði sem við vorum leidd á.

Kína kapitalismanns

Ungur Kínverji sem fylgdi okkur alla dagana, frá því við lentum í Beijing, allt þar til við stigum um borð í skipið okkar, kom okkur oft á óvart.  Hann talaði af mikilli hreinskilni um hið “kapitaliska” samfélag sem nú ríkir í kommúnistaríkinu Kína.

2015-10-06 09.08.51
Kínversk Junka skorin í Jade

Hann sagði “við erum kapitalistískt ríki”.  Hér stjórnar að vísu bara einn pólitískur flokkur og hann þarf aldrei að gera málamiðlanir við annan eða aðra flokka.  Stjórnun hans er því sterk og markviss. Það er betra fyrir þjóðina okkar að vita hvaða stefna er í gangi og verður áfram í gangi næstu árin.  Þannig getum við gert plön til næstu áratuga á meðan ýmsar aðrar þjóðir vita aldrei hvaða pólitíska stefna verður ríkjandi eftir næstu kosningar.

2015-10-04 16.37.31
Drekinn í fjórum byggingum

Álit Íslendings

Við hittum konsúl Íslands í Hong Kong, sem nú heyrir undir Kína og þau hjón hafa búið s.l. 15 ár bæði í Kína og Hong Kong.  Hann sagði “Kína hefur verið frábærlega stjórnað á síðustu áratugum og er enn”.   Hann benti á að innviðir ríkisins hefðu tekið risavaxin framfaraskref að undanförnu í samgöngumálum fyrst og fremst og einnig fjármálum, mennta- og heilbrigðismálum.  Hann sagðist ekki vera á leiðinni í kínverska Kommúnistaflokkinn, en “það væri rangt að láta góða stjórnun hans ekki njóta sannmælis”. Utanríkisstefna Kína er svo annað og ógeðfelldara mál, eins og fram kom er við hittum leiðsögumann okkar í Vietnam.   Það á reyndar líka við um utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sem eru jafnan þátttakendur í öllum ófriði veraldarinnar, að góðu eða illu.

Boð og bönn

Það er auðvitað líka hægt að benda á margan tvískinnung í stjórnun Kínverska Alþýðulýðveldisins.  Það hefur lengi verið bannað að eignast nema eitt barn.  Samt er hægt að kaupa sér rétt til annars barns, eða borga sekt til ríkissjóðs.   Það er jafnvel hægt að fá lánaða kennitölu og fæðingardag, hjá vinum og vandamönnum.  Ríkið veit af þessari aðferð en aðhefst ekki.  

Börnin heimsóttu Himnahofið
Börnin heimsóttu Himnahofið

Fjárhættuspil er bannað með lögum í Kína.  Samt má spila í Lotto og leggja undir í veðreiðum í Hong Kong að gömlum breskum sið. Macao, fyrrum portugölsk nýlenda, sem lögð var undir Kína rétt fyrir aldamótin, hefur lengi verið þekkt fyrir spilavíti.  Þegar Kínverjar yfirtóku nýlenduna lögðu þeir ekki niður spilavítin, heldur reisti ríkið það allra stærsta og glæsilegasta spilavíti, sem þar er nú til.

12 SÆTI LAUS Í SÆLKERAGÖNGU TIL TOSKANA 2016? Nú er 12 manna matarklúbbur að ákveða sig hvort koma eigi með í Sælkeragöngu til Toskana á næsta ári.  Fari svo eru bara önnur 12 sæti eftir. Þetta er skemmtilegt dæmi um vinsældir ferðanna okkar, því ekkert er farið að auglýsa enn.   Það er líka gaman að sjá að fleiri og fleiri landar okkar vilja láta eftir sér að ganga sér til heilsubótar í útlöndum, frekar en að hringja alltaf á bíl.   Hér má sjá dagskrá fyrir Sælkeragöngu:  9 dagar í Toskana