Dásemdir Toskana

Fyrsta ferð sumarsins til Ítalíu var Sælkerganga til Toskana.  Hótelið okkar í Montecatini Terme er frábærlega staðsett, með góðan sundlaugargarð og mjög glæsilega dekuraðstöðu, fyrir þá sem vilja. 20 manns áttu þar saman 9 sólríka og fallega daga við holla hreyfingu, mat og drykk.  Hópurinn var víða að af landinu og á ýmsum aldri.  Það eina sem allir deildu var áhugi fyrir náttúrunni, hæfilegri dagskrá og notalegum kvöldum í góðum hópi.

Það var mjög heitt fyrstu dagana, en gönguleiðir léttar og ef á fótinn þá var það gjarnan í skóginum og því mest í skugga.  

Menning

Fyrsta daginn gengum við upp í Montecatini Alto, sem er gamli miðaldabærinn.  Torgið þar og þröngu göturnar bjóða mann velkominn frá fyrsta augnabliki og maður tekur toglestina niður með því örugga heiti að koma þangað aftur.

Klassískir tónleikar í Tettuccio
Klassískir tónleikar í Tettuccio

Eftir góða hvíld var farið í Tettuccio Spa, snæddir spennandi smáréttir með góðvínum og svo hlustað á klassíska tónleika í þessu stórkostlega mannvirki.

Mannlíf

Annan daginn sem gengið var í nágrenni bæjarins höfðum við með okkur nesti og snæddum í skuggsælu rjóðri furu og birkiskógar.  Með hráskinku, fennelpylsu, ostum og brauði dreyptum við á rauðvíni og svo voru kirsuber í desert.  Þetta var heitasti dagur ferðarinnar.

Pikk nikk í skóginum.
Pikk nikk í skóginum.

Munaður

Á þriðja degi tókum við lestina til Lucca upp úr hádeginu og þar er ekki minni saga en í Montecatini Alto, hún meira að segja snertir okkur íslendinga gegnum atburði í Sturlungu.  Um kvöldið snæddum við á einnar stjörnu Michelin stað.

Michelin matur, vín og þjónusta.
Michelin matur, vín og þjónusta, allt var það einstakt.

Við höldum okkur við Toskana og Ítalíu í næstu pistlum, því af nógu er að taka í þeim ferðum.

%d bloggers like this: