Háborgin Edinborg

Edinborg var fyrr á öldum og er enn “heimsborg” þó ekki sé hún stór.  Háskólinn í Edinborg dró til sín afburða nemendur og kennara öldum saman.  Þar varð Encyclopedia Britannica til og þar nam sjálfur Charles Darwin. Selkórinn átti þess kost að syngja hádegistónleika í sjálfri St.Giles kirkjunni, stolti borgarbúa og sem státar af hinum fræga “vesturglugga”, listaverki Leifs okkar Breiðfjörð.  Byggir hann verkið á ljóðum Roberts Burns, sem kalla mætti Jónas Hallgrímsson þeirra Skotanna.

Leifur Breiðfjörð nam glerlist í Edinborg.
Leifur Breiðfjörð nam glerlist í Edinborg.

Nýja borgin

Þó þessi borgarhluti sé um 250 ára, er hann kallaður nýji bærinn og er glæsileg sönnun þess hvern ávöxt hönnunarsamkeppni, eða kannski frekar skipulagssamkeppni getur leitt af sér. Kastalinn, sem allir hafa séð á myndum gnæfir yfir borginni úr hvaða átt sem litið er. Robert Louis Stevenson skrifaði Gulleyjuna sína í Edinborg og þar fékk hann einnig hugmyndina að Dr. Jekyll & Mr. Hyde. 200px-Sveinbjörn_Sveinbjörnsson Sveinbjörn Sveinbjörnsson, tónskáld. Selkórinn kom að húsinu þar sem þjóðsöngurinn okkar var saminn, en Sveinbjörn Sveinbjörnsson var þá prófessor við Edinborgarháskóla.  Þar starfar enn Hafliði Hallgrímsson tónskáld. Deginum fyrir heimflug var eytt í Glasgow og þar voru síðustu tónleikarnir fluttir í boði og samstarfi við heimakór.

Kórferðalög

Söngferðir kóra til útlanda eru skemmtileg verðlaun fyrir mikla og stundum þreytandi vinnu sem kórfólk leggur á sig, eftir að dagvinnu lýkur.  Á móti segja sumir um kóræfingarnar “að mæta á æfingu er einmitt hvíldin sem ég bíð eftir allan daginn í vinnunni”. Í næstu pistlum verðum við á Ítalíu við vellystingar í mat og drykk.