Ferðasögur líðandi sumars

Ég fór með þrjá hópa til Evrópu í maí og júní.  Fyrstan ber að telja Selkórinn, kórinn sem ég hafði stjórnað í 21 skemmtilegt ár.  Hann lagði leið sína til nágranna okkar í Skotlandi. Þangað er gott að koma.  Meira að segja matur á veitingastöðum hefur tekið þar talsverðum framförum síðan ég var þar síðast. Selkórinn dvaldi sex nætur í Skotlandi og söng fjórum sinnum opinberlega.

Fyrirmyndin að tröppunum í Titanic.
Fyrirmyndin að tröppunum í Titanic.

Að láta gott af sér leiða

Fyrstu tónleikarnir voru í Innverness, þar sem Titanic var innréttað forðum.  Þeir tónleikar voru fjáröflunartónleikar í samstarfi við samtök þar í borg, sem reyna að afla fjár fyrir heimilislausa. Tónleikarnir gáfu af sér yfir 700 pund og var Selkórnum þakkað mikið vel fyrir bæði framtakið og hina fallegu íslensku dagskrá. Næstu tónleikar voru haldnir í bænum Elgin og í samstarfi við heimakórinn.  Þar sýndu Skotarnir hvílíkir höfðingjar þeir eru heim að sækja.  Heimagert veisluborð var í boði fyrir kórana á undan kvöldtónleikunum og mikið spjallað um “kórlífi” eins og góður maður nefndi það.

Hvernig er hægt að aka um Skotland og kíkja ekki í Whiskeyhús.
Hvernig er hægt að aka um Skotland og kíkja ekki í Whiskeyhús.

Heima og að heiman

Það er skemmtilega kunnuglegt að aka um norður héruð Skotlands, aftur og aftur finnst manni maður vera staddur á Íslandi.  Lögun fjallanna, gróður þeirra og gliljaskörð, allt er þetta furðulíkt hinu íslenska landslagi. Við fengum fallegt veður báða ferðadagana, en akstur til Inverness er um þrjár kl.st. hvort sem er frá Glasgow eða til baka suður til Edinborgar. Eftir þrjár nætur í Innverness var haldið til Edinborgar og verður sagt frá þeirri heimsókn í næsta pistli.