Svo því sé haldið til haga, þá er afstaða mín til starfsfólks á veitingastöðum í Ameríku ekkert nema jákvæð. Það hefur tamið sér og er þannig alið upp að kurteisi er þeim tamari á tungu en ónot. Þó sumir kunni að segja að það sé vegna þjórfésins, sem maður er nánast skyldugur að skilja eftir, þá vil ég ekki trúa því. Ameríkanar eru spjallarar og umræðan er miklu oftar á jákvæðum nótum en í neikvæðum heimsáhyggjutóni. Við fórum á annan stað í stórri verslunarmiðstöð og hann leit nánast alveg eins út og sá mexíkóski. Brúnbæsuð borð og stólar, ef ekki svona gerfileðurklæddir bekkir eða básar. Gluggalaus og risavaxinn. Ekkert að kvarta yfir mat eða þjónustu, en verðlag ekkert lægra en á stjörnustaðnum sem fyrr greinir. Það er auðvitað ekki við því að búast að í verslunarmiðstöð sé hágæða veitingastaður. Þangað eru allir komnir til að hvíla þreytta fætur og ræða næstu viðskipti, sem fyrirhuguð voru.
Dagur í svona verslunarmiðstöð er nánast vinnudagur og hann ekki léttur. Það er því meiri þörf fyrir stóra skammta á slíkum stað. Ég verð þó að segja að mér finnst matur í Ameríkunni ekki afgerandi í neinu nema stærðinni. Bragð er sjaldnast flókið eða mikið og þess sakna ég. Pizzur virðast þar ekki hugsaðar sem neitt nema magafylli.
Portúgali, ef hann á annað borð fengist til að selja þér pizzu, en ekki eitthvað portúgalskt, hann mundi leggja meir í að skýra þér mun á hverri pizzu fyrir sig. Ég vil ekki skilja svo við, að hafa lítið eða ekkert gott um veitingahúsamenningu Bandaríkjanna að segja og ætla að reyna að rétta þeirra hlut í næstu pistlum. Framhald í næsta pistli.
Viðkunnanlegt fólk
