Ég valdi það sem mest var mælt með. Skammturinn í stærra lagi, engin elegans yfir diskinum en bragðið dásamlegt. Aðrir völdu það sem þeir þekktu frá fyrri heimsóknum og allir í sjöunda himni með mat og magn. Það fór þó þannig að kviðfylli varð hjá öllum áður en hálfnað var af diskum. Mexíkóskur matur er, líkt og indverskur, fremur þungur í maga og því ættu skammtar ekki að þurfa að vera stórir. Það vakti athygli mína að áður en við vorum hætt að snæða, var boðið upp á plast bakka sem við gætum sópað leifunum í og drifið okkur heim. Eitt er að áætla matargestinum ákveðinn tíma til að ljúka máltíð, en annað er að gera hreinlega ráð fyrir því að hann stökkvi út strax og hann hættir að tyggja. Það er eiginlega dálítið einkennileg tilfinning að sitja á “besta” stað svæðisins en vera ekki ætlað að njóta dvalarinnar til fulls, í ró og næði.
Það verkar á mig sem hálfgerð mötuneytis hugsun að skammta öllum, eins og þeir væru verkamenn í vegavinnu og þá meina ég til forna, með haka og skóflu og ætla þeim að haska sér út svo hin vaktin komist að. Meira næst.
Fjölþjóðlegt mannlíf á Flórída
