Ferðamaður á Flórída

Við dvöldum í stóru húsi á Merrit Island, ekki fjarri Kennedyhöfða.  Merrit Island hefur engan bæjarkjarna, bara langa breiðgötu, eins og títt er um ameríska bæi. Það er rúmt um alla hluti, bílastæði eru öll stór og það er auðvelt að komast út úr amerísku bílunum, sem eru svo stórir að þeir kæmust varla fyrir á sumum bílastæðum hér í Reykjavík, hvað þá að hægt væri að opna þá, fyrir næsta bíl. Allt er hreint og umferð, þó mikil sé, gengur hnökralaust fyrir sig, leyft að taka hægri beygju á rauðu, sem vitibornir Íslendingar hafa löngu séð að er glæpsamlegt uppátæki.  

Neyslumenning Bandaríkjanna

Vöruverð er með ólíkindum lágt, ekki síst þegar er horft er til gríðarlegs úrvals, sem svo hlýtur að leiða til sóunar.  Matvælum er hent í tonnavís viku hverja, föt fara á 70% afslátt því allt þarf að gera, til að auka neyslu. Neyslu er beinlínis ætlað að vera óhófleg.  Þetta sést ekki síst þegar komið er á veitingastaði.  Skammtar eru svo stórir að jafnvel belgur eins og ég næ ekki að klára. gourmet-latino Við fórum á tvo veitingastaði að þessu sinni.  Staður sem situr í efsta sæti yfir “góða” staði á Merrit Island eldar mexikóskan mat.  Ef ekki væri fyrir stórt skilti yfir dyrum teldi maður að um vöruhús væri að ræða eða dekkjaverkstæði.