Einn daginn munum við leigja okkur hjól og endurlifa hjólaferðir æskuáranna. Það var með nokkrum óhug sem ég settist á hjólið eftir margra ára æfingaleysi og handbremsur í stað fótbremsa. Það sannaðist þó undrafljótt, sem fullyrt hefur verið, að ef maður hefur einu sinni lært að hjóla, þá gleymist það ekki.
Turia garðurinn er lagður í gamla farveginn þar sem áin Turia rann áður. Eftir stórflóð í henni, seint á síðustu öld, með tilheyrandi tjóni á híbýlum og öðrum eignum, var ákveðið að flytja ána út fyrir borgina.
Upp kom tillaga um að nýta þurran árfarveginn sem stofnbraut um miðja borgina, en blessunarlega varð úr að breyta farveginum í fólkvang. Breidd farvegarins skapar gott rými og erill borgarumferðarinnar verður lítt áberandi. Í neðsta hlutanum ákváðu yfirvöld að reisa glæsimannvirki, með einstökum arkitektúr, þar sem gestir fá innsýn í bæði fortíð og framtíð.
