Kyrrðarvika, en allir á faraldsfæti

Kirkjan í dag stendur á grunni pílagrímakirkjunnar í Lucca

Nú, í kyrrðarvikunni er kannski ekki úr vegi að hugleiða merkingu hennar í trúarbrögðum margra þjóða. Páskar eru mun eldri hátíð, orðið komið úr hebresku og merkir að “fara hjá”.  Hjá Gyðingum eru Páskar stærsta hátíð kirkjuársins.

Guðspjöllin, sönn eða samin

Guðspjöllin fjalla ítarlega um þessa daga vegna píslargöngu Krists.  Þau eru reyndar öll skrifuð 50 – 150 árum eftir atburðina og þó þau, sem mest er haldið að okkur, séu kennd við Markús, Mattheus, Lúkas og Jóhannes, þá er augljóst að þau eru ekki rituð af þeim ágætu mönnum.  Þeim hefur enda verið breytt á kirkjuþingum og að sjálfsögðu tekist misjafnlega til við þýðingar á þeim á milli tungumál. Lengi hefur verið vitað um Tómasarguðspjall og jafnvel Júdasarguðspjall og Illugi Jökulsson reit áhugaverðar greinar í Fréttablaðið á dögunum um Júdas og mismunandi áherslur guðspjallanna á að gera hann að svikara allra tíma. Til hvers þessi langloka í upphafi bloggs?  Jú, kannski bara til að minna á að ekki er allt rétt sem stendur á bók og ekki er allt sem sýnist, þó það sjáist á mynd.

Trúrabrögð og listir

Eitt er þó sennilega öllum trúarbrögðum sameiginlegt, þær listir sem til hafa orðið í þeirra nafni eru einhverjar þær fegurstu sem mannkynið á.  Gildir þar einu hvort litið er til tónlistar, högg- eða málarlistar.  Það að listamönnum tekst svo vel til í þessum trúarlegu verkum sínum, hlýtur að benda til þess að trúin, hver sem hún er, er þeim meira virði en aðrir þættir í tilveru þeirra.

Sturlunga og Toskana

Á miðri hinni blóðugu Sturlungaöld héldu jafnt íslenskir ribbaldar og góðmenni suður til Rómar, til að hljóta fyrirgefningu og friðþægingu sálar sinnar, með heimsókn til æðsta stóls kirkjunnar hér á jörð.  Í bænum Lucca voru að minnsta kosti tvær, svo kallaðar pílagrímakirkjur á þeim tíma.  Önnur þeirra tengist beint atburðum, sem áttu þátt í upphafi Sturlungaaldar. Í næsta pistli segi ég kannski ögn frekar frá því.