“Sá sem fer langt, sér minna”

Lao Tse var uppi á 6. öld fyrir Kristsburð.  Hann var umsjónarmaður bókasafns meginhluta ævinnar, í heimabæ sínum í Kína.  Hann yfirgaf land sitt á efri árum og í þeirri “óvissuferð” sinni ritaði hann bók, sem fengið hefur titilinn “Bókin um veginn”.  Þar er meðal annars að finna yfirskrift þessa pistils.

Afskaplega hefur hraði nútímans fleygt okkur langt frá þessari hugsun.

Ég fór gangandi út á Skálanes við Seyðisfjörð í fyrrasumar og þar urðu á vegi mínum margar gömlu lágplönturnar íslensku, sem ég hafði undir fótum í uppvexti mínum, í sveitinni hjá afa og ömmu.  Ég stökk til og fór að mynda þær hverja af annarri, til að geta nú notið þess að skoða þær í næði, þegar heim kæmi.

Annaðhvort er ég afspyrnuslakur ljósmyndari, eða mynd getur aldrei komið í stað þess að vera á staðnum.

Ég naut þess að velja hverja þúfu eða plöntu, ákveða sjónarhorn og nálægð, en ég finn ekki sömu gleði við að skoða þessar myndir í dag.  Hvers vegna skyldi það vera?

Góð mynd getur fangað gleðina á brosandi andliti og harm þess beygða.  Hún getur hins vegar ekki fært manni ilm blómsins, þyt golunnar eða hitastig augnabliksins.  Það er bara þar og þá.