Upplifun – ofnotað orð?

Sælkeraganga í Toskana

Fyrir ein jólin tók Bragi Valdimar, Baggalútur sig til og eyddi orðinu “upplifun” úr málinu okkar, sem ofnotuðu orði.   Þetta var auðvitað í einum af íslensku þáttunum Brynju Þorgeirsdóttur og hans,  Orðbragði. Það var alveg sérstök “upplifun” að sjá þetta góða orð hverfa í tætarann hjá honum.

Sem ferðaskipuleggjandi hef ég lengst af unnið með hópum, sem hafa þurft að koma sér saman um ákvörðunarstað og innihald ferðar.  Í því samhengi hefur mér oft orðið hugleikið hve mikið á að skipuleggja og hversu miklum tíma á að láta óráðstafað.

Að halda utan um hópinn

Kórar og klúbbar vilja gjarnan vera sem mest saman.  Eftir vel heppnaða tónleika vill kórfólk t.d. fara saman út að borða.  Klúbbar eru komnir saman til útlanda til að vera saman í útlöndum.  Kennarahópar vilja gjarnan hafa minna skipulagt, svo dæmi séu tekin.

Svo eru aðrir hópar sem hafa nægan tíma til að liggja á netinu og skipuleggja ferð sína sjálfir.  Það er ekki bara af því að þeir telja sig ná hagstæðari ferðamáta þannig, heldur einnig af því að þá ráða þeir sjálfir hve mikið er fyrirfram bókað, áður en komið er á staðinn.

Ég hef reynt að draga lærdóm af þessum breyttu aðstæðum og vissulega er þetta hægt með stærri hópa, eins og fjölskylduna, en þá þarf sá sem skipuleggur að vera vel staðkunnugur.

Í þessum greinum hef ég dvalið talsvert við hugleiðingar um mikla yfirferð sumra ferða t.d. rútuferða.  Sem andstæðu þess hef ég bent á nauðsyn og vilja ferðamannsins til að fá að nema staðar og njóta.

Við viljum gjarnan taka okkur góðan tíma til að njóta góðs matar og vína.  Á sama hátt viljum við líka fá að njóta andrúmsloftsins á torginu, hvort sem er í borg eða bæ, snerta á vínberjunum og ólífunum, sé okkur gefinn kostur á slíku.

Reynslusaga af sólarströnd

Á námsárunum í Reykjavík vann ég þrjú sumur sem afleysingamaður í “Löggunni”.  Það var góð reynsla, líka fyrir komandi ár í fararstjórninni.  Vandamál sem upp kunnu að koma í báðum tilfellum tengdust langoftast áfengi.

Einhverntíma var ég kallaður á hótel til að skakka fjölskylduerjur.  Þegar ég heyrði íbúðanúmerin vissi ég að þarna var um að ræða tvær systur, heldur ógæfulegar í útliti, önnur gift lítilli písl af manni, hin með bölvaðan svola með sér.

Ég hughreysti sjálfan mig með því að mér hefði nú oftast tekist að settla mál með góðu, þegar ég var í löggunni.  Þegar ég svo kom í opna, aðra íbúðina, var önnur systirin á förum með píslina á eftir sér, rumurinn var eftir og hans elja.

Sem oft áður kom annað í ljós en ég hafði ætlað.  Það var beljakinn sem hafði verið laminn af fylgikonu sinni og hann var heldur lítill í sér.  Sagði mér að þær væru eiginlega ómögulegar saman systurnar, færu gjarnan til útlanda til þess eins að komast í ódýrt dóp og pillur, hann væri bara að verða heldur þreyttur á þessu öllu saman.  Við kvöddumst í mikilli vináttu, en ég hótaði árásarkonunni öllu illu ef hún léti stóra manninn ekki í friði.