Þarf biðtími að vera glataður tími?

Í haust endaði ég fyrsta pistil um ferðahegðun, með Hollywood slangri og tengdi það vísun í Fóstbræðrasögu.  Hér er önnur tilvitnun að gamni, sem segir að eitthvað spennandi sé framundan.

Egill Jónasson, frá Húsavík var ömmubróðir Jónasar Friðriks, textaskálds.  Egill vann hjá Kaupfélagi Húsavíkur og eitt sinn kom vinnumaður utan af Tjörnesi með miða frá húsfreyju sinni, þar sem honum var falið að kaupa Mývatnsreyð, sem er reyktur silungur úr Mývatni.  Þannig silungur var ekki til og Egill skrifaði á sama miða skilaboð til húsfreyjuinnar.

Af því að það er ærin leið
okkar á milli, vina –
sendi ég þér salta reyð, (i)
seinna færðu – hina.

Að fenginni reynslu

Í þessu ferðabloggi mínu hef ég verið að deila með ykkur hugmyndum, sem flestar byggjast á langri reynslu minni t.d. í fararstjórn.

Þessi reynsla hefur safnast upp síðan ég hóf að starfa við geirann 1985.  Ég er þó ekkert að fullyrða að ég hafi meira vit á “ferðaiðnaðinum” en aðrir sem við hann starfa.

Ég veit hinsvegar að ég þekki hann frá fleiri hliðum, en margir á skrifstofunum hér heima.  Þarna á ég við öll árin og ferðirnar sem ég hef farið í hlutverki fararstjóra.

Allt er gott sem endar vel

Einn er sá tími í mörgum ferðum, sem oft verður útundan í skipulagi og getur skemmt, annars ágæta ferð.  Þetta er heimfarardagurinn.  Oft er heimflug síðdegis, eða jafnvel að kveldi.

Ég hef margoft séð fólk sitja í anddyri hótelsins, eftir að hafa skilað herbergi og “keppast við” að bíða í 4 – 5 tíma eftir rútunni út á flugvöll.  Því finnst eiginlega ekki taka því, að gera eitt eða neitt, því það eru bara fáir tímar til brottfarar frá hóteli.

Ég hafði einhverntíma tekið að mér fararstjórn yfir “langa helgi” í borgarferð, með leiguflugi og sá fram á svona dag fyrir marga.  Til að losna við þetta svarthol stakk ég uppá því við úrvinnsluna að þessi dagur yrði notaður í skoðunarferð, sem hæfist kl. 11:00, þegar fólk væri búið að skila herbergjum og endaði úti á flugvelli.

Þetta lukkaðist svo vel að ég veit að margar ferðaskrifstofur eru farnar að hafa þennan hátt á í dag, hvenær sem því verður viðkomið.