“…. þar sem voru bara heimamenn, engir túristar.”

Góður dagur við Garda-vatn

Hversu oft höfum við sagt þannig frá og heyrt aðra segja frá t.d. veitingastað, sem þau höfðu snætt á, þar sem eingöngu voru heimamenn.  Það er svo skemmtileg þversögn í því hjá okkur að vilja vera í öðru landi, en vilja ekki vera kölluð túristar eins og allir hinir. Ég á létt með að skilja þetta út frá því sem ég hef oft nefnt í þessum pistlum mínum, að Íslendingar eru betri ferðamenn en margir aðrir. Við þekkjum öll slagorðin um freka Þjóðverja, sönn eða login og hávaðann og fyrirganginn í Bretum.  Ameríkana, sem tala alltaf 10 desibilum hærra en allir aðrir og láta eins og enginn skilji þá, eða finnst það sem þeir eru að segja svo merkilegt, að þeir vilja endilega deila því með heimsbyggðinni. Það eina sem hugsanlega lætur Íslendinga stinga í stúf í félagsskapnum við aðra, heitir áfengi og meðferð á því.  Ég má kannski ekki segja það, en það er tilfinning mín að þar hafi íslenskar konur vinninginn á karlana.  Þær mættu á stundum a.m.k. lækka aðeins í magnaranum. Ég er þess fullviss að það er einlægum vilja, eða áhuga okkar Íslendinga að þakka, að við eigum svo auðvelt með að falla í hópinn.  Við erum jú laus við “stórþjóðarvitundina”, sem t.d. ofangreindum ferðamönnum hættir til að sýna náunganum nokkuð freklega. Í yfirskriftinni er ég að vitna í þá ánægju okkar að finna veitingastaði, þar sem nær eingöngu snæða heimamenn.  (Á sama tíma undrumst við að túristar á Íslandi fái “kikk” út úr því að borða á Múlakaffi).  

Nautacarpaccio og trufflupestó
Nautacarpaccio og trufflupestó

Ástæður þess að ég kýs að leita uppi veitingahús sem heimamenna sækja eru tvær.  Þar er auðvitað fyrst og fremst boðið upp á þjóðlegan og einfaldan mat og verðið er þar auðvitað miklu betra en þar sem ferðamenn eru í hópum. Á hverfisstaðnum verður maður hinsvegar að vera tilbúinn til að fá eitthvað sem er ekki besti maturinn í bænum.  Það er svo aftur eitt af því sem gerir heimsóknina eftirminnilega og eftirsóknarverða.