Eitt eilífðar smáblóm

Cafe Flora í París

Ég veit sennilega engan stað hér á landi sem mér þykir notalegra að gleyma amstri dagsins, en bústaðurinn okkar við Álftavatn.  Þið sem eigið svona afdrep þekkið þessa tilfinningu, þegar maður er loks búinn að hella sér í að bera á pallinn og kannski verstu hliðina líka.

 Þá sest maður sólarmegin á pallinn, með gott kaffi og fylgist með hrossagauknum, sem maður kannski sér ekki, en heyrir.  Bera hæð og þéttleika á kjarrinu saman við sumarið í fyrra og nöldra svolítið út af nágrannanum, sem ekki hefur málað hurðar og gluggakarma síðan í hitteðfyrra.

 Þetta er dásamleg stund.

 Hinn eftirlætisstaðurinn er ekki á Íslandi, heldur kaffihús við fjölfarna götu, bara í einhverri suðlægri borg, eða bæ.  Þarna hefur maður óendanlegan fjölbreytileika hins mannlega hversdags fyrir augum.

 Maður hefur heimamanninn, sem hefur lesið “moggann sinn” þarna á hverjum degi í hálfa öld og faðir hans og afi gerðu slíkt hið sama.

 Maður hefur hina túristana, sem eru svo hlægilegir í vandræðagangi sínum.

 Manni dettur aftur og aftur í hug titill bresku kvikmyndarinnar “Today is Tuesday, this must be Belgium”.  Þar var enginn að gera greinarmun á þessum staðnum eða hinum, það var bara verið að fylgja ferðadagskránni og halda tímaáætlun.  Það besta við myndina var þó titillinn, hvorki leikur eða leikstjórn var framúrskarandi.

 Yfirskriftinni var stolið frá Sr. Matthíasi.  Það sem Matthías á við með setningu sinni er auðvitað að smáblómið er tíminn.  Íslands þúsund ár eru augnablik í eilífðinni.  Við eigum líka að varðveita hvert augnablik og ekki láta þau týnast í fánýti eða eltingaleik við gerfiþarfir.

 Lifið heil.

Höfundur er Jón Karl Einarsson, framkvæmdastjóri Fararsniðs.  Ef þér fannst pistillinn skemmtilegur, skaltu skrá þig á póstlistann.