“Slow Travel” – hvað er það?

Vínekra í Toscana

“Slow Travel”, er hugtak sem hefur á síðustu misserum verið að ryðja sér til rúms í ferðaheiminum.  Það er skylt hugmyndunum Slow Food og Slow Fashion.

Ef hugtakið er þýtt beint, mætti tala um hægferðir.  En “slow travel” snýst ekki bara um hraða, heldur hugarástand og upplifun.  Þess vegna tölum við um velferðir.

Í velferðum nærðu að:

  • skapa núvitund.  Þær beina athyglinni að stað og stund.
  • ná tengingu við umhverfið og náttúruna.
  • hægja á ferðinni, stíga af bensíngjöfinni.
  • tengjast við menninguna og mannlífið á staðnum.
  • njóta hins óvænta, uppgötva það sem þú bjóst ekki við fyrirfram.
  • hlífa umhverfinu með því ferðast um með almenningssamgöngum, á reiðhjóli eða tveimur jafnfljótum

Ný hugsun

Fyrir allmörgum árum sá maður auglýst 7 – 10 daga rútuferð um Evrópu og undirtitillinn var kannski “sex landa sýn”.  Enn er verið að bjóða “fjórar borgir” í einni ferð.  Mörgum líkar það vel, eru algerlega verndaðir af rútu og fararstjóra, þurfa lítt að hugsa, eru leiddir úr einni borg í aðra.

Hinum er alltaf að fjölga, sem hafa ferðast þannig oftar en þeir hafa frekari löngun til.  Þeir vilja fá að staldra við á fallegum stað, taka myndir, skoða nýtt blóm eða tré, sem þeir höfðu áður aðeins séð út um gluggann á rútunni, vilja allt eins njóta hita eða skugga hádegissólar eins og loftkældrar rútunnar.  Þeir vilja líka ferðast í fámennari hópum fremur en stærri.

Leiðin að hjarta mannsins...
Leiðin að hjarta mannsins…

Þeir meta slíkt meir en fjölda ekinna kílómetra, kastala eða kirkjuheimsókna og telja lausan tíma fyrir sig og vinina fremur kost, en að þeir hafi þar fengið minna fyrir peninginn.  Þetta fólk er að sækjast eftir upplifun augnabliksins.

Ein lítil saga af veitingastað

Ég kom sem fararstjóri í fáfarna smáborg í Portugal og þar voru allir á eigin vegum í hádegismat.  Ég fann lítinn stað í þröngri, gamalli götu, fékk matseðil, bara á Portugölsku og enginn gat snarað neinu yfir á ensku fyrir mig.  Ég valdi eitthvað sem var ekki ódýrast, það hlyti að vera spennandi.  Ég ætla ekki að segja hvað ég fékk, en með góðu rauðvíni smakkaðist það vel.

Ári seinna vildi svo til að ég var aftur staddur í sama bæ og stakk mér aftur ofan í sama kjallarann, fékk sama matseðil, sá aftur “entrecoste”, taldi aftur að það hlyti að vera “entrecote” og aftur fékk ég… svínaskanka!  Ég hef enga tölu á því hvað ég er búinn að segja þessa sögu oft og víða.

%d bloggers like this: