“Þar sem ég má næðis njóta”

Greinahöfundur, Jón Karl Einarsson með eiginkonu sinni Ágústu Helgadóttur að njóta næðis í hæglætisferð

Þó fyrirsögnin sé sótt í Davíðssálm nr. 23 er ekki ætlunin að fjalla um biblíulegt efni. Þessi grein á að fjalla um ferðalög í útlöndum, þar sem við getum verið í hæfilega þægilegri dagskrá flesta daga.  Líka verið á eigin vegum þess á milli.  Mig langar að setja á blað hugleiðingar mínar um þess konar ferðamennsku, sem ég aðhyllist því meir sem ég starfa lengur við geirann.

Þegar ég hóf starf sem fararstjóri í Algarve í Portugal sumarið 1987 var aðeins boðið up á þriggja vikna ferðir, í leiguflugi.  Ástæðan var einföld.  Áfangastaður í uppbyggingu og því of mikil áhætta á að bjóða vikulegt flug og markmiðið að bjóða sem lengsta dvöl fyrir sem minnstan pening.  Síðan þá hefur ekkert breyst hvað varðar þá hugsun að sólarferðir í leiguflugi eigi að vera ódýrasti valkostur ferðamannsins og um leið gullkálfar ferðaskrifstofanna.  Örugglega er það enn svo að barnafjölskyldum býðst ekki annar kostur betri.

Hinir sem eru “búnir með þennan pakka” eru samt tilbúnir í annarskonar ferðamáta.  Óska ekki eftir að hanga fleiri klukkustundir á dag í sundlaugargörðum eða sandströndum.  Þeim fækkar líka óðum, sem vegna lítillar málakunnáttu, aðhyllast helst langar rútufeðir, stundum land úr landi á nokkrum dögum.  Þar sem forsendan er að dyggur fararstjóri haldi utan um hópinn og leysi hvers manns vanda er upp kann að koma.

Greinahöfundur, Jón Karl Einarsson með eiginkonu sinni Ágústu Helgadóttur að njóta næðis í hæglætisferð
Ágústa og Jón Karl að njóta augnabliksins

Hvorttveggja hef ég reynt, bæði sem farþegi og fararstjóri og smátt og smátt orðið fráhverfur hvorutveggja.  Ég hef sannfærst um að margur, sem ekki berst í bökkum fjárhagslega, er nú til í að setja ferðapeninginn sínn í einmitt þá ferð, sem hann hefur lengi leitað að, þó hún kosti mun meira en sólarferð í leiguflugi.  Ferð, sem er ekki ofskipulögð en hver sem vill getur tekið sig út úr hópnum, án þess að vera félagsskítur hópsins.

Ég er líka sannfærður um að þessu fólki finnst það kostur, fremur en galli,  að hópurinn telji ekki 40 – 50 manns, heldur frekar 20 – 30.  Þannig verður öll nándin meiri bæði við aðra farþega og fararstjóra, innlenda og erlenda.  Þar sem ekki er ferðast milli hótela aftur og aftur á viku til 10 dögum, heldur dvalið á sama stað, því það er nú svo að oftast er gnótt áhugaverðra hluta við þröskuldinn, ef maður fær tíma til að skoða.

“Cliffhanger”

Við þurfum ekkert að fara vestur til Hollywood til að finna hugtakið hér að ofan, þar sem slökkt er á myndavélinni, einmitt þegar söguhetjan hangir á fremstu fingurkjúkunum og hengiflugið fyrir neðan.  Við förum bara vestur á Hornbjarg og sjáum fyrir okkur Þorgeir Hávarsson, þar sem hann hangir í hvönninni, harðákveðinn í að kalla ekki á hjálp.  Við það að Þormóður Kolbrúnarskáld, vinur hans, bjargaði honum urðu kaflaskil í sambandi þeirra.  Hér verða líka kaflaskil og í næsta pistli ætla ég að lýsa þessum nýja ferðmáta  nánar.