Ferðamennska og náttúra

Kannski er ekkert land í Evrópu, þar sem óskipulögð ferðamennska er jafn stórt umhverfismál og landið okkar.  Auðvitað er stunduð ferðamennska á ýmsum viðkvæmum svæðum t.d. í Alpafjöllum, en þar ríkir skipulag og ferðamönnum er stýrt eftir ákveðnum stígum, burt frá viðkvæmustu blettunum.  Mig langar að hugleiða með ykkur nokkur atriði í sambandi við þessa staðreynd. Umgengni mannsins við “landið” eða kannski frekar meðferð mannsins á Jörðinni er ekki nýtt deiluefni.  Hvar liggja mörkin milli nýtingar og ofnotkunar.  Þessi þræta er nokkuð sem enginn ætti að sleppa því að hafa skoðun á. Ég fór í útilegu, í Veiðivötn, með 40-50 manna hópi fyrir nokkrum árum.  Þegar verið var að taka saman tjöld og ganga “vel” frá gistisvæðinu, tók einn leiðtoga hópsins fram 10 kg. áburðarpoka með þeim orðum að við ættum ekki að láta duga að hirða ruslið eftir okkur, við ættum að “þakka fyrir okkur” með því að gefa landinu okkar áburð í kveðjuskyni.  Allir voru sammála, en ég veit ekki hve mörg okkar hafa tekið upp þennan sið. Fyrir nokkrum dögum þurfti ég á kortasíðu já.is til að finna Helgufell við Kjalveg.  Ég notaði gerfihnattamyndirnar og þar gat að líta svo áberandi grænar, breiðar rendur að ég tók vart eftir nafninu á Helgufell.  Þetta eru ummerki eftir áburðargjöf og sáningu Landsvirkjunar, sem endurgreiðslu fyrir besta beitarland Auðkúluheiðar, Kólkuflóann, sem fór allur undir lón Blönduvirkjunar. Pistill - Ferðamennska og náttúra Árið 1852 var Franklin Pierce forseti Bandaríkjanna.  Hvíti maðurinn hafði þá hrakið frumbyggjana burt af sléttunum og upp í erfið fjallahéruð, sem hinir hvítu höfðu enn ekki þörf fyrir.  Pierce forseti taldi sig gera vel er hann bauð indíánunum að kaupa af þeim landið sem eftir var. Höfðingi Suahmish indiánanna var þá Si´ahl og er borgin Seattle í Washington fylki nefnd eftir honum.  Hann ritaði forsetanum bréf, sem til er í mörgum útgáfum, en inniheldur boðskap sem í dag hlýtur að skoðast a.m.k. jafngildur, ef ekki sannari, en þau sjónarmið sem þá voru ríkjandi hjá Vesturlandabúum og eru kannski enn í afstöðunni til landsins. Bréfið hefst á þessum orðum.

Hinn mikli höfðingi í Washington hefir gert oss orð að hann vilji kaupa land vort. En hvernig er hægt að kaupa eða selja landið fremur en andrúmsloftið.  Hugmyndin er oss fjarlæg.  Ef vér eigum ekki tærleika himinsins, speglun vatnsins, hvernig getið  þér þá keypt það af oss?  Sérhver blettur þessarar Jarðar er helgur í huga þjóðar vorrar.  Sérhver skínandi barrnál, sérhver suðandi fluga.  Allt er það heilagt gagnvart minningum og lífshlaupi þjóðar vorrar.  En vera má að það sé vegna þess að hinn rauði maður sé villimaður og sé skilnings vant. Vér þekkjum þytinn í greinum trjánna, eins og vér þekkjum blóðið sem steymir um æðar vorar.  Vér erum hluti af Jörðinni og hún er hluti af oss.  Hinar angandi liljur eru systur vorar.  Björninn, hreinninn og hinn mikli örn eru bræður vorir.  Fjallshryggurinn, frjósemi akursins, búkvarmi hestsins og maðurinn tilheyra öll sömu fjölskyldunni.  Vér gerum oss ljóst að hinn hvíti maður skilur ekki lífshætti vora.  Ein skák lands er honum ekki meira virði en hver önnur.  Haldið áfram að ata náttból yðar sauri og fyrr en nokkurn varir munuð þér kafna í yðar eigin saur.  Ég er rauður maður og ég skil ekki. Ef vér seljum yður land vort, munið þá að andrúmsloftið er oss dýrmætt, að það deilir anda sínum öllum þeim er þurfa þess við.  Að golan gaf forfeðrum vorum hinn fyrsta andardrátt og hlaut einnig þeirra síðast andvarp.  Golan veitir og börnum vorum sinn fyrsta lífsanda. Svo ef vér seljum yður land vort þá verðið þér að geyma þess vel og hafa á því helgi þess staðar, sem hinn hvíti maður getur sótt sér ilmríki blóma akursins. Lækirnir eru bræður vorir.  Þeir svala þorsta vorum.  Straumarnir bera báta vora og fæða börn vor með veiði sinni.  Þannig verðið þér að veita fljótunum sama kærleika og þér veittuð hverjum af bræðrum yðar.   Ég er villimaður og ég skil ekki aðrar leiðir en hans.

Er hér ekki verið að tala um það sem víða er talin helsta vá lífs á jörðinni, mengun andrúmsloftsins og fallvötn, svo menguð að þar þrífst ekki fiskur.  Íslenskar jökulár eru mórauðar frá því þær spretta undan jökulröndinni, bergvatnsárnar tærar allt til sjáfar.  Vestur í klettafjöllum sér maður fossandi læki og ár, silfurtær eins og íslenskar bergvatnsár.  Þegar þetta sama vatn er búið að renna gegnum nokkrar stórborgir er áin móruð að lit.  Enn þverskallast ákveðnir menn við, að trúa því að mengun andrúmsloftsins valdi hlýnun jarðar.

Munið að kenna börnum yðar það sem vér höfum vorum börnum kennt, að Jörðin er móðir okkar, að það sem skaðar Jörðina skaðar alla syni hennar.   Þetta vitum vér.  Jörðin tilheyrir ekki manninum, maðurinn tilheyrir Jörðinni. Maðurinn óf ekki vef lífsins, hann er aðeins einn þráðurinn í þeim vef.  Hvað sem hann fiktar við vefinn, það gerir hann sjálfum sér. Einn hlut vitum vér.  Okkar Guð er Guð ykkar og samúð hans breiðir sig jafnt yfir hinn rauða mann sem hinn hvíta.  Enginn maður hvort hann er rauður eða hvítur ætti að verða skilinn frá hinum. Þegar hinn síðasti af rauðskinnum er horfinn ásamt óbyggðunum og minningin um hann er eins og einmana ský á flökti yfir sléttuna, verða þá ströndin og skógurinn ennþá óspillt.  Verður þá enn eitthvað eftir af anda þjóðar minnar ?  Vér unnum þessari Jörð eins og hvítvoðungurinn ann hjartslætti móðurinnar.  Svo ef vér seljum yður land vort, unnið því eins og vér höfum unnað því.   Verndið það eins og vér höfum verndað það.   Minnist æ þess lands er þér tókuð við.  Varðveitið það fyrir börn yðar og unnið því eins og Guð ann yður.  Það eitt vitum vér.  Það er aðeins einn Guð.  Hann er Guð okkar beggja.  Við erum allir bræður.

Þrem árum eftir að bréf þetta var ritað voru samningar undirritaðir er leyfðu fjórtán flokkum indíána að velja sér kjördali sína, sem þeirra verndarsvæði.   Þremur mánuðum eftir það, braust út stríð og landnemar og námugrafarar flykktust inn á ,,vernduðu“ svæðin sem um hafði verið samið. Deilan stóð í full þrjú ár og braut niður dug og styrk indíána norðvestursvæðisins. Nú – rúmlega hundrað og sextíu árum síðar – hafa orð hins mikla höfðingja – Seattle – mikinn og þarfan boðskap að færa mönnum hvarvetna þar sem þeir ræna landið trjám þess, blómum og dýrum – meira af græðgi en þörf.